spot_img
HomeFréttirViðtöl við Birnu og Helenu í Víkurfréttum

Viðtöl við Birnu og Helenu í Víkurfréttum

12:15 

{mosimage}

 

 

Fyrirliðar Keflavíkur og Hauka sitja fyrir svörum í Víkurfréttum en viðtölin við þær voru birt í gær. Birnu er farið að kitla í fingurna eftir titli en Helena ætlar að njóta stóra dagsins í Höllinni. Fyrst kemur viðtalið við Birnu og þar strax í kjölfarið er viðtalið við Helenu. Á meðfylgjandi mynd eru Birna og Helena með bikarinn góða sem þær munu kljást um á morgun.

 

Farið að kitla í fingurna – Birna Valgarðsdóttir

 

Íslandsmeistarar Hauka og Keflavík mætast í úrslitaleik Lýsingarbikarkeppninnar í kvennakörfuknattleik á laugardag. Leikurinn hefst kl. 14:00 í Laugardalshöll og má gera ráð fyrir jöfnum og spennandi leik eins og rimmur þessara liða hafa verið síðustu misseri.

 

Leikin er fjórföld umferð í Iceland Express deild kvenna og hafa Keflavík og Haukar mæst þrívegis í vetur. Haukar unnu fyrsta leik liðanna 90-81 að Ásvöllum en Keflavíkurstúlkur jöfnuðu metin með 92-85 sigri í Sláturhúsinu. Haukar tóku 2-1 forystu í rimmum liðanna með sigri að Ásvöllum 95-84 þann 4. febrúar síðastliðinn.

 

Óhætt er að segja að Keflavík sé mun meira bikarlið en Haukar því alls hafa Keflavíkurkonur hampað bikarmeistaratitlinum 11 sinnum en Haukar hafa þrívegis orðið bikarmeistarar. Keflavíkurkonur urðu síðast bikarmeistarar leiktíðina 2003-2004 en Haukar unnu bikarinn árið eftir. Ríkjandi bikarmeistarar ÍS duttu út úr bikarnum í 8-liða úrslitum gegn Haukum og svo slóu Haukar út Grindavík. Keflavíkurkonur fóru nokkuð auðveldari leið, lögðu fyrst Blika og svo Hamar í undanúrslitum. Fyrirliði Keflavíkurliðsins, Birna Valgarðsdóttir, hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu en hún stefnir samt ótrauð að því að vera með á laugardag. Birna reif liðþófa í hné í upphafi leiktíðar og svo tóku meiðslin sig upp fyrir skemmstu og hefur Birna ekki leikið í síðustu leikjum með Keflavík.

 

„Ég vona að allt verði í góðu hjá mér en ég hef verið að jafna mig eftir aðgerð sem ég fór í þann 19. janúar,“ sagði Birna. „Vörnin þarf að smella saman hjá okkur á laugardag og þá kemur sóknin með því. Við þurfum einnig að vera yfirvegaðar í okkar leik,“ sagði Birna en Keflavíkurkonum hefur ekki gengið sem best á móti pressuvörn Hauka og í síðasta leik liðanna töpuðu Keflavíkurkonur alls 27 boltum í leiknum. „Við munum fara vel yfir okkar mál og sjá hvað við þurfum að gera og vonandi smellur þetta allt saman þegar í leikinn kemur. Ég er farin að þrá að lyfta upp einhverjum bikar því það er langt síðan við unnum eitthvað og mig farið að kitla í fingurna,“ sagði Birna.

 

Ætla að njóta dagsins – Helena Sverrisdóttir

 

Íslandsmeistarar Hauka mæta Keflavík í úrslitaleik Lýsingarbikarkeppninnar í kvennakörfuknattleik á laugardag en leikurinn fer fram í Laugardalshöll og hefst kl. 14:00. Actavis hefur brugðið á það ráð að bjóða 1000 manns á leikinn svo gera má ráð fyrir gríðarlegri stemmningu í Höllinni.

 

Actavis er aðalstyrktaraðili körfuknattleiksdeildar Hauka og munu Haukar fá 500 boðsmiða á leikinn og Keflavík fær hina 500. Þá mun Lýsing einnig gefa fjöldan allan af bolum með einkennislitum liðanna.

 

Helena Sverrisdóttir, fyrirliði Hauka, segir fyrri viðureignir liðanna í vetur ekki neinu máli skipta á laugardag. Haukar og Keflavík hafa þrívegis mæst í vetur, Haukar hafa unnið tvisvar og Keflavík einu sinni.

 

,,Við erum allar mjög spenntar og með hugann við þennan leik, það sést kannski best á basli okkar um síðustu helgi,” sagði Helena en Haukar rétt mörðu sigur á ÍS 68-62 á sunnudag.

 

Haukar hafa þrívegis orðið bikarmeistarar í kvennaflokki en Keflavík er öllu meira bikarlið og á 11 bikartitla að baki. Í dag eru Haukar engu að síður sigurstranglegri aðilinn þegar gegnið verður til leiks í Höllinni. ,,Það skiptir engu máli þó fólk telji okkur sigurstranglegri. Þetta eru tvö mjög góð lið og við verðum bara að eiga hörkuleik, allir verða að koma klárir í leikinn og gera sitt besta,” sagði Helena.

 

Hvernig ætlar Helena annars að undirbúa sig fyrir leikinn?

,,Ég þarf að hugsa vel um sjálfa mig og undirbúa mig vel andlega. Vonandi verða bara sem flestir í Höllinni og ég ætla að njóta dagsins eins vel og ég get,” sagði Helena.

 

Haukakonur verða ekki eina framlag Hafnarfjarðar í Höllinni þar sem strax á eftir kvennaleiknum hefst karlaleikurinn kl. 16:00. Þar verða bræðurnir Jón Arnar Ingvarsson og Pétur Ingvarsson með lið sín að berjast um bikarinn. Jón Arnar er þjálfari ÍR-inga en Pétur er þjálfari Hamars/Selfoss. Framlag Hafnarfjarðar í bikarúrslitum verður því veglegra þetta árið en oft hefur áður verið.

 

Viðtal við Birnu Valgarðsdóttur úr Víkurfréttum á Suðurnesjum, www.vf.is og viðtal við Helenu Sverrisdóttur úr Víkurfréttum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, www.vikurfrettir.is

 

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -