spot_img
HomeFréttirViðtöl eftir Þór Þ - Grindavík: Létum finna fyrir okkur

Viðtöl eftir Þór Þ – Grindavík: Létum finna fyrir okkur

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Grindavík í fjórðu umferð Dominos deildar karla í kvöld.

Það var líkt og leikmenn hefðu gleymt að körfubolti snýst um báða enda vallarins í fyrsta leikhluta, þ.e. að vörnin var nánast ekki til staðar.  31-35 fyrir gestina eftir fyrsta fjórðung!  Einn í stúkunni hafði á orði að Grindavík hefði ekki skorað þennan fjölda stiga í fyrri hálfleik fyrir viku á móti Keflavík!

En Baldur og Jóhann greinilega messuðu yfir sínum mönnum fyrir annan bardagann og varnirnar hertust til muna og bættu liðin sitthvorum 14 stigunum á töfluna og Grindavík leiddi því 45-49 þegar haldið var til hlés.

Grindvíkingar virtust ætla ná góðum tökum á leiknum í þriðja leikhluta og sást um tíma ca. 10 stiga forysta en eitthvað gerðist sem olli því að gestirnir gátu hreinlega ekki keypt sér körfu!  Jordy setti annað víta sinna niður þegar tæpar 3 mínútur lifðu 3 leikhlutans og kom sínum mönnum í 67 stig og eins og Stuðmenn sungu forðum, „og síðan ekki sögunnar meir“!  Þarna voru gestirnir með ca 5 stiga forystu en heimamenn jöfnuðu með buzzer og þrátt fyrir mýmörg leikhlé Jóhanns þá kom allt fyrir ekkert og ljóst í hvað stefndi.  Körfubolti er þó þessi yndislega íþrótt sem við þekkjum og leikur getur snúist við á augabragði og þurfti ekkert mörg Ef til að taflið hefði snúist alveg við.  80-67 sást á töflunni og tæpar 5 mínútur lifðu leiks en þá loksins brast stíflan og Grindvíkingar settu 6 stig í röð og náðu boltanum og EF Óli Ól sem hafði verið sjóðandi heitur í þristum í fyrri hálfleik, hefði sett þristaskot sitt niður og þar með breytt stöðunni í 80-76 þá er aldrei að vita hvernig mál hefðu þróast.  Þórsarar settu í staðinn þrist hinum megin og þar með var sú feita búin að syngja sitt síðasta og á endanum var öruggur fyrsti sigur Þórsara í Dominosdeildinni þetta árið staðreynd.

Þórsarar að sjálfsögðu himinlifandi yfir að vera komnir á blað og eiga pottþétt fleiri sigrar eftir að koma í hús.  Þeir eru með þrjá öfluga útlendinga og góðan kjarna íslenskra leikmanna.  Þeir hafa verið að spila vel til þessa, s.b. close leikur þeirra við Íslandsmeistarana í síðustu umferð en sigur hefur látið standa á sér, þar til í kvöld.  Baldur er að gera góða hluti með liðið.  Nikolas Tomsick var bestur Þórsara að mínu mati og skartar hann – aftur að mínu mati fallegasta skoti í deildinni!  Gintautas Matulis er eiturharður og ég gæti alveg trúað að það sé pest að spila á móti honum!  Hann er hörku varnarmaður en stuðningsmenn gestanna vildu nú meina að dómararnir leyfðu honum meira en gengur og gerist og þrátt fyrir þessa mjög svo grimmu vörn sína þá var hann með eina villu þar til rúm mínúta lifði leiks.  Kinu Rachford er sterkur inn í teig en svo má ekki gleyma íslensku lykilmönnunum, Emil Karel, Ragnari Erni, Halldóri Garðari og Dabba kóng.

Eftir að gestirnir snertu botninn í leik sínum í síðustu umferð á móti Keflavík og Jóhann þjálfari endurmat stöðu sína, þá var allt annað að sjá til liðsins í kvöld.  Grindavík hafði völdin þar til heimamenn byggðu stíflu í Iceland Glacier höllinni og þeim gulu tókst ekki að gata stífluna fyrr en of seint var í rassinn gripið.  Sigtryggur Arnar dró vagninn skorunarlega séð og skoraði 14 stigum meira en sá næsti í röðinni, sem var Óli Ól.  Sá síðarnefndi hafði verið á eldi í þristunum í fyrri hálfleik og var ef ég fer með rétt mál, þá kominn með 14 stig en endaði bara með 15.  Lewis Clinch jr. á greinilega eitthvað í land ennþá og sérstaklega leit hann illa út varnarnlega þegar Þórsarar sigldu fram úr en þá leiturðu þeir stöðugt á þann mann sem Lewis var að dekka og úr varð auðveld karfa.  En ég veit að Grindjánar eru pollrólegir yfir þessari staðreynd, Lewis er frábær leikmaður og þegar hann verður kominn á fullt þá verður allt annað að sjá til liðsins.  Hin fræga Gróa á Leiti talar um að þriðji útlendingurinn sé í siktinu og hans sé von, von bráðar en ég sel það ekki dýrara en ég stal því!

Viðtöl eftir leik má finna hér að neðan:

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Þórs Þ.

Emil Karel Einarsson leikmaður Þórs Þ

Daníel Guðni Guðmundsson aðstoðarþjálfari Grindavíkur

 

Fréttir
- Auglýsing -