spot_img
HomeFréttirViðtal við Tómas Holton: Vesturlandsslagur í úrslitum IE deildar karla

Viðtal við Tómas Holton: Vesturlandsslagur í úrslitum IE deildar karla

11:45

{mosimage}

Tómas leggur á ráðin í leikhléi hjá 10. flokk Fjölnis í bikarúrslitaleiknum 

 

Karfan.is náði tali af Tómasi Holton fyrrverandi leikmanni Vals, Skallagríms og landsliðsins. Tómas er einn af leikjahæstu mönnum sögunnar í úrvalsdeild með 319 leiki auk þess sem hann hefur leikið í Ungverjalandi og Noregi. Nú er Tómas að þjálfa yngri flokka hjá Fjölni og stýrir hann m.a. 10. flokk félagsins sem varð bikarmeistari á dögunum.

Hvað er Tómas Holton að gera í dag?
Ég er kennari við Hólabrekkuskóla í Reykjavík.

Eitthvað að sýsla í kringum körfuboltann?
Ég bý í Grafarvoginum og krakkarnir mínir tveir eru í Fjölni. Ég þjálfa liðin þeirra beggja.

Hvernig er að þjálfa yngri flokka á Íslandi?
Mjög gaman. Leikir í yngri flokkum geta verið frábær skemmtun. Fólk ætti að kíkja á yngri flokka leiki öðru hvoru til að fá kennslustund í ákefð og baráttu.

Nú hefur þú reynslu af þjálfun í Noregi, hver er munurinn milli landanna?
Á Íslandi er miklu meiri alvara. Byrjað að keppa fyrr og æft miklu meira. Yngri flokka lið á Íslandi eru því nokkuð sterkari en þau norsku.

En á körfuboltanum í efstu deildum landanna?
Bestu leikmenn okkar eru betri en bestu leikmenn þeirra og það er líka meiri breidd á Íslandi. Þegar ég var að spila í Noregi fyrir 5 árum var mikið um útlenska leikmenn í deildinni. Reglan var sú að það urðu að vera a.m.k. tveir Norðmenn inná hverju sinni. Í mörgum liðum voru Norðmennirnir í algjöru aukahlutverki. Þetta fannst mér koma niður á landsliði þeirra. Mér finnst deildin á Íslandi vera farin að líkjast þeirri norksu að þessu leyti.

Eða þá samanborðið við Ungverjaland þar sem þú lékst um tíma.
Það eru nú bráðum 20 ár síðan ég spilaði þar. Helsti munurinn var hvað leikmenn voru miklu hærri og liðin betur skipulögð. Menn höfðu sitt hlutverk og voru ekki lengi inná ef þeir fóru útí einhver ævintýri á vellinum. Þetta voru líka allt atvinnumannalið, sem æfðu tvisvar á dag. Mér fannst reyndar svolítið fyndið hvað þessir gaurar voru duglegir að spara kraftana og virtust aldrei vera á fullri ferð á æfingum. Ætli þeir hafi ekki bara fundið út að það væri eina leiðin til þess að endast heilt tímabil með svona miklu æfingamagni.

Er von á Tómasi Holton við stýrið á einhverju úrvalsdeildarliði?
Á ekki von á því.

Hverjir leika til úrslita í Iceland Express deild karla?
Tími Vesturlands er kominn. Snæfell og Skallagrímur spila til úrslita.

Hverjir verða Íslandsmeistarar?
Vil ekki eyðileggja spennuna með því að kjafta frá því.

 

{mosimage}

 

Bikarmeistarar 10. flokks karla 2007  

 

[email protected]

 

Myndir: www.kr.is/karfa

Fréttir
- Auglýsing -