spot_img
HomeFréttirViðtal: Markus Hallgrimson

Viðtal: Markus Hallgrimson

13:15

{mosimage}

Karfan.is barst á dögunum frétt frá bandaríska háskólabotanum af leikmanni í NCAA III sem var að setja met í flestum skoruðum þriggja stiga körfum í einum leik en hann skoraði 21 slíka. Með fréttinni fylgdi listi yfir þá sem skorað hafa flestar slíkar í öllum NCAA deildunum og þar var meðal annars að finna nafn Keith Veney sem lék með Njarðvík árið 2000.

 

En það sem vakti athygli þess sem þetta skrifar var nafnið Markus Hallgrimson með 16 þriggja stiga körfur í einum leik. Sá sem um ræðir er 31 árs gamall og leikur í þýsku 2. Bundesliga norður með Mitteldeutscher BC sem er á toppi deildarinnar. Markus hefur lengi leikið körfubolta en hann hóf ferilinn með TV Langen og eftir það hefur hann leikið með USC Heidelberg, Montana St. háskólanum í NCAA II deildinni, þýsku liðunum Avitos Giessen, BCJ Hamburg, NVV Mönchengladbach, TSK Wurzburg, ASC Mains, spænska liðinu Los Barrios Cadix og svissneska liðinu Geneve Devils. Karfan.is náði tali af Markusi og lagði fyrir hann nokkrarar spurningar. 

Hver er Markus Hallgrimson? Ég hef verið atvinnumaður í körfubolta síðan 1995. Ég lærði sögu og samskipti við Montana State Billings háskóla. Ég á tvíburastelpur sem heita Jade og Jaylyn Hallgrimson eða Markusdottir. 

Hvar ertu fæddur og uppalinn?Ég er fæddur í Lörrach í Þýskalandi en pabbi minn, Paul, var skiptikennari þar í nágrenninu. Ég ólst upp rétt utan við Frankfurt í Þýskalandi, í bæ sem heitir Langen/Hessen en pabbi þjálfaði þar atvinnumannalið í körfubolta. 

Hver er tenging þín við Ísland?Langafi minn fór frá Íslandi 1882. 

Hefur þú komið til Íslands?Já, einu sinni, árið 1987 þegar ég var tólf ára gamall.  Faðir minn ferðast þangað ansi oft.  Ég mun einhvern daginn annað hvort spila á Íslandi eða í það minnsta koma þangað með dætur mínar til að sýna þeim hvaðan þær koma!  Dan, föðurbróðir minn, rakti ættir okkar aftur til ársins 970, og taldi bæði þá sem fóru frá Íslandi og þá sem héldu sig þar! 

Þekkirðu einhverja ættingja þína þar?Við gistum heima hjá Gunnari.  Hann var frændi afa míns, sem einmitt stofnaði Gunnars majones.Valgerður Sverrisdóttir er náfrænka föður míns.  Er hún ekki í utanríkisráðuneytinu!?Ég gisti á bænum hennar, ók um á dráttarvél, og fór í göngu með henni að gamla Hallgrimsson ættaróðalinu.  Daniel bróðir minn lærði að keyra á Íslandi. 

Skilur þú íslensku?Nei, en ég kann eitthvert blótsyrði sem afi átti til að að láta út úr sér. 

Hvenær byrjaðirðu að spila körfubolta?Pabbi var high-school þjálfari í Bandaríkjunum og atvinnuþjálfari í Þýskalandi, svo ég hef verið að spila körfubolta megnið af ævinni. 

Af hverju valdirðu körfubolta?Ég stundaði knattspyrnu og tennis þegar ég var yngri, en körfubolti var samt alltaf í uppáhaldi.  Núna horfi ég bara á knattspyrnu og leik tennis mér til gamans. 

Eru aðrir körfuboltamenn í fjölskyldunni, þ.e. sem hafa verið að spila?Pabbi lék háskólabolta með Western Washington University, og komst í úrtökubúðir hjá Seattle Supersonics í gamla daga. Daniel bróðir minn lék sem atvinnumaður í Þýskalandi í u.þ.b. fimm ár, en ákvað að hætta í körfunni 26 ára gamall til að fara út í tónlist. 

Hvar hefurðu verið að spila?Ég hef spilað í öllum tímabeltum Bandaríkjanna.  Hef einnig spilað í Þýskalandi, Sviss og á Spáni.  Í Evrópukeppninni hef ég leikið gegn liðum frá Ungverjalandi, Tékklandi, Sviss, Póllandi, Belgíu, Frakklandi og Hollandi. 

Hefurðu einhvern tímann hugsað um að spila á Íslandi?Já, ég hef gert það.  Ég fékk reyndar tilboð fyrir ekki svo löngu síðan.  Ég er reyndar á samningi í Þýskalandi eins og er.  Erum núna í 1. sæti í 2. deild og ætlum okkur upp núna. 

Hefurðu einhvern tímann íhugað að sækja um íslenskan ríkisborgararétt? Já, reyndar, en ég held að of langt sé síðan langafi flutti utan.  Mér hefði þótt heiður að vera Íslendingur.  Hefði aldrei sótt um að verða þýskur.

 

[email protected]

 

Mynd: Heimasíða Mitteldeutscher BC

  

Fréttir
- Auglýsing -