”Já ég get ekki annað en tekið undir það að ég er gríðarlega spenntur og svo einnig þakklátur fyrir þetta tækifæri og traust sem mér er sýnt.” sagði Friðrik Ingi Rúnarsson í samtali við Karfan.is nú rétt í þessu í tilefni þess að Friðrik skrifaði undir 5 ára samning þess efnis að taka við karla- og kvennaliði UMFN. Friðrik er sigursæll þjálfari og síðast við þjálfun tók hann bikarmeistaratitilinn með Grindavík eftir sigur gegn Keflvíkingum.
En afhverju aftur í þjálfun ?
Þjálfun hefur alltaf verið stór partur í mínu lífi og náttúrulega ýmislegt og allt sem við kemur körfuboltanum. Samskipti mín í kringum körfuna voru náttúrulega mikil í mínu fyrra starfi hjá sambandinu, var mikið í samskiptum við þjálfara og faglegur ráðgjafi afreksnefndar þannig að kannski má segja að þetta hafi legið beinast við hjá mér. Ég verð að viðurkenna að á síðastliðinum árum hafi blossað upp ákveðin löngun að snúa aftur og vinna með leikmönnum og í þessu umhverfi sem mér finnst mjög gefandi og skemmtilegt. Ég hugsaði með mér skyldi sá dagur koma að ég færi aftur í þetta. Hlutirnir æxluðust svona hjá sambandinu og þá fór maður náttúrulega að pæla þá meira í þessu. Það voru nokkrir klúbbar sem könnuðu stöðuna á mér og það komu fyrirspurnir um mína hagi í þessum málum. En ég bý hér í Njarðvík og víst tækifærið bauðst þá gat ég ekki hafnað því.
Hefuru verið í einhverju viðhaldi í þjálfun síðan þú hættir ?
Ég er svo lánsamur að þekkja marga góða þjálfara bæði erlendis og hérlendis og hef haldið mjög góðum samskiptum við þá. Ég hef þá nýtt mér öll þau tækifæri sem gáfust til þess að setjast niður með þeim þegar við hittumst og ræða um körfuboltann og hver sé stefnan. Svo hef ég tekið þátt í “kúrsum” á netinu sem heita Mastermind og eru á vegum Euroleague. Starfsins vegna þá var ég iðulega mikið í kringum landsliðið og þá Peter Öqvist. Vann mikið með honum og var hans hægri hönd að vissu leyti án þess þó að vera aðstoðarþjálfari. Ég fylgist grannt með og fæ reglulega hringingar frá ýmsum aðilum varðandi körfuna þannig að ég hef verið þannig séð beintengdur. Áður en þetta kom allt upp þá var ég þá þegar búinn að skrá mig á þjálfaranámskeið í Bandaríkjunum núna í maí.
Hvað þykir þér mest spennandi við starfið í Njarðvík ?
Framundan eru spennandi og krefjandi tímar að halda áfram að byggja upp frábært félag sem og að gera tilkall í þá titla sem eru í boði. Það verður enginn afsláttur gefinn í uppbyggingu félagsins enda eru menn stórhuga í að bæta ennfrekar við þá stórkostlegu aðstöðu sem hefur byggst upp fyrir leikmenn félagsins, jafnt hjá þeim yngri sem eldri. Þetta helst í hendur. Við Einar Árni, yfirþjálfari yngri flokka, munum vinna sem einn maður í að tengja saman unglinga- og meistarafklokksstarfið ásamt öllum þeim snillingum sem þjálfa hjá félaginu. Þetta mun ganga jafnt á með kynjum enda er það svo að í fyrsta sinn í sögu félagsins eru fleiri stelpur að æfa en strákar. Mikill efniviður er á leiðinni bæði hjá stelpum og strákum sem gaman verður að vinna með í framtíðinni. Eitt af því sem stefnt er að er að hafa sömu aðferðarfræði í yngri flokkum félagsins og upp í meistaraflokka karla og kvenna. Með þessu verður allt starf markvissara og leikmenn eiga auðveldara með að aðlagast næstu flokkum fyrir ofan þegar þangað er komið.
5 ára samningur
Samningurinn sem ég geri er til 5 ára og er í takti við það sem er að gerast í unglingaráðinu. Mér finnst það gott að þetta sé unnið svona saman og að þessar tvær einingar muni vera á sömu blaðsíðunni. Það eru sömu markmið hjá báðum að búa til góða félagsmenn og framtíðarleikmenn sem og þjálfara og umfram allt einstaklinga sem félagið getur verið stolt af í framtíðinni.
Ef við tölum um leikmannahópa. Sérðu fyrir þér einhverjar breytingar eða viðbætur?
Þetta er hlutur sem þarf að velta fyrir sér. Við vitum sem svo að Elvar mun yfirgefa félagið og þar er stór biti að fara. Elvar er ekki bara flottur leikmaður heldur hefur hann stýrt þessari leikstjórnendastöðu síðustu ár sem er mjög mikilvæg staða á vellinum. Við þurfum ákveðna tegund af leikmanni í þetta hlutverk. Svo liggur fyrir að miðherjastaðan þarf einnig að mannast vel en ég geri ekki ráð fyrir að leitast verði eftir því að hafa áfram þann sem sinnti henni nú síðast. Fyrir eru vissulega spennandi leikmenn í báðar stöður en Óli Ragnar Alexanderson hefur verið gríðarlega óheppinn með meiðsli, og svo er Ragnar Helgi yngri bróðir Elvars líka þarna kornungur. En svo er spurning eftir þetta frábæra starf hingað til hvort við viljum fara að taka skrefið lengra og þá hvort svo ungir leikmenn geti einir og sér staðið undir því. En allir þeir leikmenn sem eru fyrir eru frábærir leikmenn og ég hlakka til að vinna með þeim öllum og vona að þeir verði allir áfram. Kvennaliðið er ungt að árum en margir efnilegir leikmenn voru að spila vel fyrir meistaraflokkinn á síðustu árum og jafnframt eru margir ungir leikmenn að koma upp. Vonandi höldum við öllum stelpunum áfram en markmiðið er að fara upp í úrvalsdeild sem allra fyrst, vonandi fyrir tímabilið 2015-2016. Við munum efla innviði kvennastarfsins sem skilar sér til lengri tíma og er þá horft til aðferðarfræði á milli yngri flokka og meistaraflokks eins og áður er getið.
Ef eitthvað hvað óttastu mest við þetta comeback ?
Nei ég kem inní þetta af miklu æðruleysi og til hlökkun. Ég er keppnismaður og vil meina að ég hafi þroskast mikið með aldrinum. Mér fannst t.a.m vera mikill munur á mér frá því þegar ég var með Grindavík síðast 2006 og því tveggja ára hlé sem ég tók þar fyrir. Maður er enn ungur og lífaldur þjálfara hér á Íslandi hefur ekki verið hár og því mætti breyta því maður þroskast með aldrinum í þessu þjálfarastarfi. En ég óttast ekkert, ef þetta gengur ekki þá er það bara þannig. Ég kem áhugasamur inn í þetta aftur, ég veit hvað ég stend fyrir og hef haft mikinn tíma til að til að sjá þetta úr fjarlægð. Ég veit að þetta verður krefjandi verkefni og sérstaklega í því sögulega samhengi sem þessi klúbbur hefur og til mikils er vænst.
Mynd: Friðrik Ingi handsalar samningi við Jóhannes Kristbjörnsson og Jakob Hermannsson úr stjórnarteymi KKd. UMFN.