spot_img
HomeFréttirViðsnúningur í Dalhúsum

Viðsnúningur í Dalhúsum

Það varð sannkallaður viðsnúningur í úrslitarimmu Fjölnis og Breiðabliks í 1. deild kvenna í kvöld í Dalhúsum. Eftir góða byrjun hrökk allt í baklás hjá þeim í Breiðablik og leiknum lauk 69-58, Fjölni í vil.
 
 
Breiðablik byrjaði leikinn af hörku og komst á þremur mínútum í stöðuna 1-10. Eftir fimm mínútur var staðan 3-13 og þjálfari Blika, Andri Þór skipti öllum fimm leikmönnum út af eins og venjan hefur verið hjá honum undanfarið leiktímabil. Þá fór Fjölnir í nokkrar góðar sóknir og náðu að skora 5 stig áður en annað lið Blikastelpna fór í gang og allt fór að detta hjá þeim. Í stöðunni 8-14 með rúmar þrjár mínútur eftir af fyrsta leikhluta skoruðu Kópavogsstúlkurnar 13 stig á móti 3 hjá heimamönnum. Staðan eftir fyrsta leikhluta: 11-27, Blikum í vil.
 
Í öðrum leikhluta snérist dæmið gjörsamlega við. Það var eins og lok hefði verið sett á körfuna hjá Breiðablik á meðan að Fjölnir fór að raða inn stigunum. Á annarri mínútu leikhlutans virtist Mone Laretta Peoples, erlendur leikmaður Fjölnis, vera hætt komin þegar hún og Jaleesa Butler, erlendur leikmaður Blika, lentu í samstuði þannig að Mone þurfti að yfirgefa völlinn og jafna sig. Breiðablik nýtti sér ekki fjarveru hennar og Jaleesa, sem hafði skorað 7 stig í fyrsta leikhluta og varið tvö skot, var tekin úr umferð með tvídekkingu frá Fjölni sem liðsmönnum Breiðabliks tókst aldrei að nýta sér. Blikastelpur klikkuðu á 5 þristum, 3 tveggja stiga skotum og 3 vítaskotum. Þær grænklæddu virtust missa allt sjálfstraust á skotunum sínum, fóru að hika, hanga á boltanum eða gefa lélegar sendingar (11 tapaðir boltar í leikhlutanum) og fyrri hálfleik lauk í stöðunni 27-28. Breiðablik skoraði 1 stig í leikhlutanum á móti 16 stigum Fjölnisstúlkna.
 
Seinni hálfleikur var til að byrja með framhald af öðrum leikhluta; Fjölnir hélt áfram að skora á meðan ekkert virtist fara ofan í hjá Breiðablik. Það var ekki fyrr en á fjórðu mínútu að Blikar skoruðu úr sniðskoti eftir að hafa næstum tapað boltanum enn og aftur. Á fimmtán mínútum skoruðu Blikastelpur 3 stig á meðan að Fjölnisstúlkur röðuðu inn 29 stigum. Þegar hinar grænklæddu fóru loks að hitta úr skotum sínum svöruðu heimamenn í sömu mynt og munurinn hélst nokkurn veginn til loka leikhlutans. Þegar einn leikhluti var eftir af leiknum var staðan 48-40, Fjölni í vil. Pétur Már, þjálfari Fjölnisstúlkna hefur augljóslega stappað í þær stálið eftir fyrsta leikhlutann! Þvílíkur viðsnúningur!
 
Blikastelpur náðu með herkjum að minnka muninn og komust næst heimastúlkum í stöðunni 51-48. Þá virtist Mone taka liðið sitt upp á bakið og átti vægast sagt frábæran leikhluta. Í hvert sinn sem Blikar minnkuðu muninn þá braust hún í gegnum vörn þeirra á hinum enda vallarins og hélt þannig aftur af Breiðablik á ögurstundu (14 stig í lokaleikhlutanum, þ.a. 9 stig í röð Fjölnismegin). Fleiri Fjölnisstúlkur tóku sig til og skoruðu á seinustu þremur mínútunum og innsigluðu þar með sigur í öðrum leik úrslitarimmunnar. Lokastaða 69-58.
 
Þá eru bæði lið með sigur á heimavelli og seinasti leikur rimmunnar mun fara fram í Smáranum næsta sunnudagskvöld (13. apríl) kl.19:15. Sannkallaður úrslitaleikur verður þar á ferð þar sem sigurvegarinn öðlast rétt til að spila í úrvalsdeild kvenna á næsta leiktímabili! Sjáumst þar!
 
Fjölnir: Mone Laretta Peoples 28 stig/11 fráköst/7 stolnir boltar/6 stoðsendingar, Eyrún Líf SIgurðardóttir 13 stig/5 stoðsendingar, Hrund Jóhannsdóttir 11 stig/15 fráköst/3 stoðsendingar, Erla Sif Kristjánsdóttir 9 stig/9 fráköst/3 stolnir boltar, Sigrún Anna Ragnardóttir 5 stig, Kristín Halla Eiríksdóttir 3 stig/3 stoðsendingar, Erna María Sveinsdóttir 0 stig, Telma María Jónsdóttir 0 stig, Margrét Loftsdóttir 0 stig, Brynja Pálína Sigurgeirsdóttir 0 stig, Elísa Birgisdóttir.
 
Breiðablik: Jaleesa Butler 14 stig/12 fráköst/5 stoðsendingar/4 stolnir boltar/4 varin skot, Kristín Óladóttir 13 stig, Aníta Rún Árnadóttir 13 stig/4 stoðsendingar, Ingunn Erla Kristjánsdóttir 4 stig/3 stolnir boltar, Elín Kara Karlsdóttir 4 stig, Alexandra Sif Herleifsdóttir 4 stig, Berglind Karen Ingvarsdóttir 3 stig/4 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Helga Hrund Friðriksdóttir 2 stig, Guðrún Edda Bjarnadóttir 1 stig/10 fráköst, Efemía Rún Sigurbjörnsdóttir 0 stig, Ísabella Ósk Sigurðardóttir 0 stig, Helena Mikaelsdóttir 0 stig.
 
 
Umfjöllun/ [email protected]
Mynd/ Karl West Karlsson 
Fréttir
- Auglýsing -