spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaViðeigandi að vinna á Vesturgötunni

Viðeigandi að vinna á Vesturgötunni

Það var mikil stemmning á Vesturgötunni á Akranesi í dag en ÍA lék þá sinn þriðja kveðjuleik í röð í Bónus deildinn í íþróttahúsinu við Vesturgötu.  Skagamenn bíða enn eftir að geta hafið leik í AvAir höllinni, nýju íþróttahúsi bæjarins við Jaðarsbakka, en að öllum líkindum var þetta í alvörunni síðasti leikur liðsins í þessu fornfræga húsi Akurnesinga.

Liðin höfðu bæði spilað þrjá leiki í deildinni fyrir leik kvöldsins. Álftanes hafði unnið tvo og tapað einum á meðan ÍA hafði tapað tveimur og unnið einn.

Álftanes byrjaði leikinn að krafti, skoruðu fyrstu tvær körfur leiksins og voru komnir í þægilega 4-12 stöðu um miðbik fyrsta leikhluta. ÍA tók þá leikhlé og hresstust við það og náðu muninum niður í eitt stig, 16-17 þegar ein og hálf mínúta var eftir af leikhlutanu. Álftnesingar náðu þá aðeins jafnvægi aftur í sinn leik og leiddu eftir leikhlutann 17-21.

Annar leikhluti byrjaði eins og sá fyrsti, hlutirnir gengu upp Álftanes megin á meðan Skagamenn voru í bölvuðu brasi með sinn leik og áður en ÍA tók leikhlé eftir um fjögurra mínútna leik var staðan orðin 19-30. Aftur hresstust heimamenn eftir leikhléið og nàðu aðeins að rétta sinn hlut áður en Álftanes tók leikhlé og leiddu svo í hálfleik 31-39.

Skagamenn byrjuðu þriðja leikhlutann sterkt og skoruðu átta fyrstu stig seinni hálfleik og jöfnuðu leikinn í 39-39 áður en Álftanes tók leikhlé og stemmningin á þétt sett um pöllunum í takt við gang heimamanna. Áhlaup ÍA hélt áfram eftir leikhléið og komt ÍA yfir í fyrsta skipti í leiknum 44-41 eftir gott varnar stopp sem endaði með opnum þristi. Við það vöknuðu Álftnesingar og náðu forustunni aftur en ÍA vildi ná stjórn aftur á annars stjórnlausum leik à köflum og náðu aftur forustunni og leiddu fyrir loka leikhlutann 54-52.

Liðið byrjuðu fjórða leikhluta á að skiptast á körfum en aðeins meiri meðbyr var með heimamönnum áður en Álftnesingar náðu vopnum sínum og minnkuðu muninn niður í eitt stig þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum. Næstu fjórar mínútur voru í járnum staðan jöfn 70-70 þegar síðasta mínúta leiksins hófst. Ekki minnkaði spennan þá, vindur í segl ÍA sem komust í 75-72 þegar 29 sekúndur lifðu leiks og Álftnesingar tóku leikhlé. Hröð sókn Álftaness eftir leikhléið skilaði þeim à vítalínuna þar sem bæði vítin fóru niður og munurinn eitt og aðeins eitt stig og 23 sekúndur eftir á leikklukkunni og Skagamenn tóku boltann inn eftir leikhlé. Gestirnir brutu strax, ÍA setti seinna vítið niður og Álftanes lagði af stað í síðustu sókn leiksins sem endaði með skoti sem geigaði og 76-74 sigur heimamanna staðreynd.

Mikil gleði braust út í leikslok hjá Akurnesingum og virkilega viðeigandi að kveðja Vesturgötuna með sigri og ekki annað hægt en að hrósa heimamönnum fyrir stuðninginn og stemmninguna og einnig er við hæfi að þakka gestunum en mæting stuðningsmanna Álftanes var góð í kvöld.

Hjá heimamönnum var Gojko Zudzum stigahæstur með 25 stig auk þess að taka 7 fráköst. Næstur honum í stigaskori var Darnell Cowart með 16 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.

Hjá gestunum fór mest fyrir Ade Taqqiyy Henry Murkey en hann lauk leik með 24 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar. Næstur honum í stigaskori var Haukur Helgi Pálsson með 13 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.

Nánari tölfræði úr leiknum má finna hér

Gaman að segja frá því að

-leikur kvöldsins var fyrsta viðureign ÍA og Álftanes í efstu deild í körfubolta.

-ÍA fullyrðir að næsti heimaleikur þeirra verði í hinni nýju AvAir höll við Jaðarsbakka.

-þriggjastiga nýting liðanna í kvöld var mjög léleg. ÍA hitti úr 6 af 21 þriggjastiga skotum sínum á meðan Álftanes hitti úr 3 af 25.

-Jafnt var á með liðunum í villum en bæði lið fengu 16 villur.

-ÍA voru heppnir að Álftnesingar nýttu sér ekki 23 tapaða bolta heimamanna.

Viðtöl

Umfjöllun / HGH

Myndir / Jónas H. Ottósson

Fréttir
- Auglýsing -