15:17
{mosimage}
(Ari og Hamarskonur mæta Keflavík í 8-liða úrslitum)
Dregið var í 8-liða úrslit í Subwaybikar karla og kvenna í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal í dag og náði Karfan.is tali af nokkrum þjálfurum sem viðstaddir voru dráttinn. Ari Gunnarsson og hans liðsmenn í Hamri sátu hjá í fyrstu umferð í kvennaflokki en drógust á útivöll og mæta Keflavík.
,,Þetta er bara fínt, mjög gott að fá alvöru leik í fyrsta leik í þessari keppni,“ svaraði Ari aðspurður um andstæðingana. ,,Toyotahöllin er erfiður útivöllur en þetta er bara verkefni sem er fínt að klára bara núna ef við ætlum okkur lengra í þessari keppni,“ sagði Ari.
Nú er deildin mjög jöfn og erfitt að spá í spilin þar, er það ekki jafn erfitt að rýna í þessa bikarkeppni og íslenska veðrið?
,,Veðrið á Íslandi er alltaf alveg eins,“ svaraði Ari léttur. ,,Deildin hefur bara verið skemmtileg í vetur og leikirnir dottið hingað og þangað eftir jafnar viðureignir og deildin bara heldur sínu striki,“ sagði Ari.
Yngvi Gunnlaugsson þjálfari toppliðs Hauka í Iceland Express deild kvenna var einnig viðstaddur bikardráttinn og hans liðsmenn fá KR á Ásvöllum.
Þið mætið KR í 8-liða úrslitum, þið hefðuð alveg geta fengið auðveldari andstæðinga! ,,Já já, en þegar maður er kominn þetta langt er ekkert auðvelt. Ég hafði það nú samt á tilfinningunni að við fengjum annað hvort Fjölni eða KR því þetta eru liðin sem við spilum mest við svo þetta kom mér ekkert svakalega á óvart,“ sagði Yngvi.
Þú hefur nú komið áður í Höllina og kannt væntanlega ágætlega við þig þar? ,,Jú jú, við höfum nánast verið þar á hverju ári síðustu fjögur ár þó sigurhlutfallið hafi kannski ekki verið okkur hagstætt undanfarið þá er þetta bara skref í þá átt að breyta því til hins betra,“ sagði Yngvi.
Benedikt Guðmundsson þjálfari toppliðs KR í Iceland Express deild karla var sáttur við að fá heimaleik gegn Keflavík!
,,Já, allt sem ég vildi var heimaleikur og maður getur ekki beðið um meira í svona stöðu en þetta verður erfiður leikur, það er ekki spurning,“ sagði Benedikt sem á fimmtudag heldur norður í land og teflir sinni sveit gegn Þórsurum.
,,Þórsararnir eru með fínt lið og eru mjög sterkir heima en hafa kannski ekki náð sama styrk á útivöllum þannig að þeir stóla mikið á heimavöllinn og vinna marga góða sigra þar. Þeir leikir sem þeir hafa tapað þar í gegnum tíðina hafa verið naumir ósigrar svo við gerum okkur grein fyrir því að við erum að fara í hörkuleik þar,“ sagði Benedikt.
Mynd: [email protected]



