spot_img
HomeFréttirViðar Örn: Við ætlum að verja heimavöllinn

Viðar Örn: Við ætlum að verja heimavöllinn

Boðið verður upp á myndarlega rimmu á Egilsstöðum í kvöld og á morgun þegar topplið 1. deildar Höttur og KFÍ mætast tvisvar sinnum á jafn mörgum dögum. Viðar Örn Hafsteinsson tók við liði Hattar í sumar og situr með liðið í 2.-3. sæti deildarinnar og hans menn fara í alla leiki til að vinna!
,,Við erum bara vel stemmdir og allir klárir og heilir,“ sagði Viðar í samtali við Karfan.is en Höttur er enn án Benedikts Þorvaldar sem handarbrotnaði fyrir um það bil mánuði síðan en var enda við að losna úr gipsi.
 
Aðspurður hvernig rimman gegn taplausum Ísfirðingum leggðist í hann svaraði Viðar: ,,Þeir eru ekki taplausir, þeir töpuðu t.d. síðasta leik sínum,“ sagði Viðar sposkur og átti þá við Lengjubikar karla. ,,KFÍ er ekki óvinnandi, við þurfum að koma þeim út úr sínum leik og ég vona að það verði fullur kofinn hjá okkur. Ég veit af einhverjum jólahlaðborðum en við höfum fengið fínan stuðning í vetur og vonandi heldur það bara áfram.“
 
Fjöldi ungra leikmanna steig inn í meistaraflokk Hattar í sumar, leikmenn eins og Eysteinn Bjarni Ævarsson og Andrés Kristleifsson ásamt öðrum efnilegum leikmönnum. Er þjálfarinn ánægður með frumraun þeirra í meistaraflokki?
 
,,Ég ákvað þegar ég tók starfið að mér að yngri leikmennirnir fengju stór hlutverk en þeir verða ekkert góðir öðruvísi. Fyrstu leikirnir einkenndust af smá stressi en þetta eru alvöru karlar,“ sagði Viðar en hvaða áherslur hefur hann verið að koma með eftir að hann snéri aftur heim?
 
,,Ég setti inn þann körfubolta sem ég hef áhuga á því að spila og svo fengum við tvo mjög góða kana til að hjálpa þessum strákum og mínar áherslur eru að spila góðan varnarleik. Við spilum líka þríhyrningssókn og það er ekkert feimnismál. Þá hafa varnaráherslurnar verið að skila sér enda höfum við fengið á okkur vel innan við 80 stig í leik,“ sagði Viðar en eini tapleikur Hattar í deildinni hefur komið á heimavelli, er þá raunhæft að stefna á tvö stig þegar fjögur verða í boði?
 
,,Við förum í alla leiki til að vinna, við ætlum að verja heimavöllinn og búnir að tapa einum heima og það er ekki í boði aftur!“
 
Hvað mun fyrrum skólabróðir Viðars frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni, Pétur Sigurðsson, bjóða upp á í kvöld?
 
,,Hann er ekkert að fara að breyta sínu plani, KFÍ mun halda sig við sinn leik og þeir munu keyra á okkur. Það gerist mikið í kringum Craig Schoen svo þeir breyta ekki neinu. Ég er búinn að sjá nokkra leiki með KFÍ þökk sé útsendingum þeirra á netinu sem er gríðarlega jákvætt.“
 
Fréttir
- Auglýsing -