spot_img
HomeFréttirViðar Örn tekinn við Hetti

Viðar Örn tekinn við Hetti

 
Hattarmenn á Egilsstöðum undirbúa sig nú af krafti fyrir komandi tímabil í 1. deildinni. Nýr þjálfari verður við stjórnvölinn en Viðar Örn Hafsteinsson mun þjálfa meistaraflokk félagsins auk þess er hann yfirþjálfari yngri flokka og stýrir drengjaflokki og 11. flokki. Viðar er heimamaður og lék með Hetti á ný í fyrra eftir nokkurt hlé en spreytir sig nú í fyrsta sinn á þjálfun í meistaraflokki. Undir hans stjórn vann hins vegar Höttur sinn fyrsta titil í körfuknattleik þegar 10. flokkur félagsins varð bikarmeistari í vor.
Þá hefur Frosti Sigurðsson verið ráðinn þjálfari hjá yngri flokkum Hattar og mun leika með liðinu í vetur. Frosti mun einnig hafa umsjón með körfuknattleiksakademíu sem rekin verður við Menntaskólann á Egilsstöðum. Líkt og Viðar er Frosti heimamaður en þeir hafa báðir á undanförnum árum leikið með Hamri og Laugdælum. Þeir eru báðir íþróttakennarar að mennt og bindur körfuknattleiksdeild Hattar miklar vonir við ráðningu þeirra en stefnan er sett á að halda áfram að byggja upp öflugt starf í yngri flokkum félagsins.
 
Myndatexti: Magnús Þór Ásmundsson formaður körfuknattleiksdeildar Hattar ásamt Viðari (t.h.) og Frosta (t.v.)
Fréttir
- Auglýsing -