spot_img
HomeFréttir?Við getum vel unnið fjóra leiki í röð?

?Við getum vel unnið fjóra leiki í röð?

16:00

{mosimage}

Hér kemur umfjöllun Sigurðar Elvars um leik fjögur í Morgunblaðinu miðvikudaginn 11. júní. Hér minnist hann m.a. á að í Pala Lottomatica eru aðeins tveir fánar, sá ítalski og sá íslenski.

 

JÓN Arnór Stefánsson lagði sitt að mörkum í sannfærandi 84:70-sigri Roma á Siena í fjórða úrslitaleiknum um ítalska meistaratitilinn í körfuknattleik í gærkvöld. Staðan í rimmunni er 3:1 fyrir Siena. Liðin eigast við í Siena á morgun og Siena getur með sigri þar tryggt sér titilinn.

Jón Arnór skoraði öll 7 stig sín í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var 39:39. Jón Arnór var enn að svitna um hálftíma eftir að leiknum var lokið þegar Morgunblaðið ræddi við hann. „Ég var mjög ánægður með mitt framlag. Skotin fóru ofan í en ég hefði að sjálfsögðu viljað taka aðeins fleiri skot í síðari hálfleik. Mér fannst allt liðið mæta til leiks með öðru hugarfari en í síðasta heimaleik. Við vorum aðeins meira afslappaðir í því sem við vorum að gera. Menn hugsuðu kannski að það væri ekkert annað sem gæti gerst en að við værum komnir í sumarfrí ef illa gengi. Við getum vel unnið þetta Siena-lið á góðum degi og núna er pressan komin á þá. Ég tel að það geti allt gerst í framhaldinu og ég hef trú á því að við getum unnið fjóra leiki í röð,“ sagði Jón sem lék í 26 mínútur af alls 40.

Það er óhætt að segja að litla Ísland leiki stórt hlutverk í úrslitum í einni stærstu deild heims í körfubolta. Stuðningsmenn Roma kunnu vel að meta baráttugleði Jóns Arnórs, en hann var sá leikmaður sem kastaði sér ávallt í gólfið á eftir boltanum ef þess þurfti. Það var Jón Arnór sem náði að blaka boltanum til samherja úr vonlausri stöðu seint í fyrri hálfleik. Við mikinn fögnuð tæplega 10.000 áhorfenda.

Það eru eflaust þessir hlutir sem fékk ítalskan stuðningsmann til þess að panta sér íslenska fánann á Netinu og er fáninn hengdur upp á grindverk fyrir framan áhorfendastúkuna. Reyndar var þessi stuðningsmaður stúlka. En það er önnur saga.

Aðrir þjóðfánar, en sá ítalski og sá íslenski, voru ekki sjáanlegir á pöllum Pala Lottomatica.

Morgunblaðið

Mynd: www.virtusroma.it

Fréttir
- Auglýsing -