spot_img
HomeFréttirVið förum báðir í Höllina en ég ætla að þjálfa

Við förum báðir í Höllina en ég ætla að þjálfa

Á dögunum þegar dregið var í 8-liða úrslit Poweradebikarsins drógust KR og Snæfell saman en slagur liðanna fer einmitt fram í kvöld í DHL-Höllinni. Karfan.is náði þeim félögum Inga Þór Steinþórssyni og Hrafni Kristjánssyni saman í stutt spjall um leikinn þegar dregið var í 8-liða úrslit.
,,Það vilja allir fá heimaleik í bikarnum og auðvitað voru það vonbrigið að fá ekki heimaleik en KR virðist hafa níu líf í þessu eins og kötturinn,“ sagði Ingi Þór. Aðspurður hvort heilladísirnar væru með KR á bandi í bikardrættinum svaraði Hrafn:
 
,,Við áttum ansi góða umferð í þessu í fyrra og í ár er ekki hægt að segja að við séum að fara auðveldu leiðina en leiðir KR og Snæfells hafa verið ansi samtvinnaðar síðustu ár og þetta verður bara enn einn kaflinn í þeirri sögu,“ sagði Hrafn en finnst Inga bikarinn hafa verið eitthvað fyrirsjáanlegur fram að þessu?
 
,,Nei nei en við höfum ekki fengið neitt ,,easy-ride“ og þetta gæti vel farið þannig að fyrstudeildarlið myndi leika úrslitaleikinn,“ sagði Ingi en telur kollegi hans Hrafn að KR liðið sé nú orðið fært um að verja báða stórtitlana sína?
 
,,Já við teljum það, enn eru margar breytingar sem eiga eftir að eiga sér stað víðsvegar en við eigum bara eftir að þróa okkar leik en núna er betra jafnvægi innan hópsins og leikmannahópurinn í dag hentar betur okkar taktík,“ sagði Hrafn en mæta leikmenn hans Inga ekki tvíelfdir eins og allir gera ávallt á móti KR?
 
,,Þetta er leikur sem allir vilja spila og ég vona bara að við mætum á öllum sílendrum í leikinn,“ sagði Ingi en við spurðum Hrafn hvort það væri ekki þreytandi að fá liðin alltaf í sínu besta pússi í fangið því það vilja jú allir leggja KR að velli:
 
,,Þetta er bara eins og hver önnur þolraunin sem bara herðir mann,“ svaraði Hrafn sposkur en við slepptum þeim ekki fyrr en við toguðum upp úr þeim hvort Snæfell eða KR færi í Laugardalshöllina?
 
,,Ég er að fara í Höllina,“ sagði Ingi brattur en Hrafn lét ekki heldur standa á sínum svörum. ,,Við förum báðir í Höllina en ég ætla að þjálfa!“
 
 
   
Fréttir
- Auglýsing -