spot_img
HomeFréttirVið erum metnaðarfullr en auðmjúkir

Við erum metnaðarfullr en auðmjúkir

Fáir ef nokkrir nýliðar hafa valdið jafn miklum usla og Tindastóll þetta tímabilið. Þegar þetta er ritað er Tindastóll í 2. sæti Domino´s deildarinnar og taplausir á heimavelli og þar með er afrekaskráin ekki upptalin heldur er félagið líka það eina sem lagt hefur KR-maskínuna að velli á tímabilinu. Við stjórnartaumana situr Spánverjinn Israel Martin Concepción. Hann er á fyrsta ári með Skagfirðinga en hefur þó komið til Íslands áður.
 
 
Israel Martin er fæddur 1974, kvæntur og eignaðist sitt fyrsta barn í vikunni. „Það verður gaman, ég frá Spáni, eiginkona mín frá Brasilíu og ltila barnið okkar íslenskt, frá Sauðákróki,“ sagði Israel og honum var augljóslega skemmt við tilhugsunina.
 
Israel var leikmaður til 12 ára í sterkri deild á Spáni sem á hans tíma var þriðja efsta deild og lék hann þar til tíu ára með Basketball Canarias sem í dag heitir Iberostar Canarias og er í ACB deildinni. „Þegar leikmannaferlinum lauk gerðist ég aðstoðarþjálfari hjá sama liði í ein sjö ár og var einnig yfirþjálfari yngri liða hjá félaginu. Allt í kringum íþróttina er mér mjög mikilvægt og þegar ég ákvað að gerast þjálfari þá fann ég vilja til að hjálpa leikmönnum. Fyrrum þjálfari minn bauð mér starf sem aðstoðarmaður og ég þáði það að sjálfsögðu svo þetta hefur verið mitt starf frá 1998,“ sagði Israel sem upplifði mikla uppgangstíma með Iberostar.
 
„Ég hef ferilinn sem aðstoðarþjálfari í Leb Silver deildinni, við fórum upp í Leb Gold og að lokum náðum við inn í ACB deildina sem er sú sterkasta í Evrópu. Við unnum bikarinn í Leb Silver og í Leb Gold, við unnum svo Leb Gold deildina og fórum þannig beint upp í ACB deildina. Eins hef ég reynslu af Euro Cup keppninni tímabilið 1999-2000 þar sem við lékum í löndum eins og Búlgaríu, Ítalíu, Englandi, Portúgal, Sviss og Ísrael.“
 
 
Israel var aðstoðarþjálfari hjá tveimur mismunandi liðum í ACB deildinni, hjá Teneriefe Basketball og Iberostar Canarias. „Að lokum eftir mikla og góða reynslu sem aðstoðarþjálfari ákvað ég að hefja minn eigin aðalþjálfaraferil. Mitt fyrsta tímabil þjálfaði ég Trepca Mitrovica í Kosovó þar sem við höfnuðum í fjórða sæti í deildinni og lékum síðan til úrslita,“ sagði Israel en þetta tímabil í Kosóvó var hann valinn besti erlendi þjálfarinn og valinn þjálfari „erlenda liðsins“ í Stjörnuleiknum. Hann er nú á sínu öðru ári sem aðalþjálfari.
 
Hvað er það við leikinn, körfubolta, sem nær þér, heillar þig?

„Körfubolti er mikilvægur þáttur í mínu lífi. Síðan ég var 15 ára gamall hef ég verið á kafi í íþróttinni sem gefið hefur mér svo margt eins og t.d. reynslu, vini, góð lífsgildi, menningu, menntun, gríðarlega mikla skemmtun sem og auðvitað atvinnu.
Hvað leikinn sjálfar varðar hef ég mjög gaman af því að greina andstæðinginn í þaula og finna leiðir til að leggja þá að velli. Ég hef því mikla þörf á því að vita allt um andstæðingana og sannfæri mína leikmenn um að það sé leiðin að sigri. Eins finnst mér gott að útskýra taktíska möguleika með videofundum og þetta þarf allt að smella saman við dugnað inni á vellinum. Ég get ekki farið inn í leik án þess að hafa áætlun setta saman eftir þessum hætti. Að mínu mati verða þjálfarar að vinna eftir strangri áætlun, bæði við æfingar og annan undirbúning leikja, taka góðar ákvarðanir og hafa trú á okkur sjálfum. Við getum þrátt fyrir þetta allt saman unnið eða tapað, það er önnur saga.“
 
Ákvörðun þín um að koma til Íslands og þjálfa Tindastól, hvernig varð þetta allt saman til?
 
„Ég hef þekkt til Tindastóls og þekkt fólk í kringum klúbbinn síðan 2011 þegar ég kom hingað í fyrsta sinn til að þjálfa við sumarbúðir í körfubolta. Það sumarið héldum við einnig þjálfaranámskeið.
Frá 2011 fram að þessu tímabili hélt ég sambandi við fólk á Sauðárkróki og fyrir þetta tímabil hafði Stefán Jónsson samband við mig til að ræða þessa hugmynd. Það tók mig aðeins tvo daga að ákveða mig,“ sagði Israel sem gerði tveggja ára samning með mögulegri framlengingu til eins árs í viðbót.
 
„Þetta hefur verið nokkuð nýtt fyrir mér allt saman, þegar ég kom hingað fyrst var það í ágústmánuði og þá var allt annað veður en hefur verið uppi á teningnum síðustu misseri,“ sagði Israel hlægjandi en hann kann afar vel við sig í Skagafirði.
 
„Þetta er lítil borg þar sem við lifum eins og ein stór fjölskylda, hér þekkja allir alla og fólk er mjög vinalegt og ávallt reiðubúið til þess að rétta fram hjálparhönd. Eins vil ég endilega koma á framfæri þakklæti fyrir hve margir hafa lagt sig fram við að láta okkur hjónum líða vel hérna.“
 
 
Israel um íslenskan körfuknattleik
 
„Mér skilst að sterkustu leikmenn þjóðarinnar leiki utan landssteinanna og að fækkað hafi í erlendum leikmönnum svo það er kannski eðlilegt að styrkleiki deildarinnar sé aðeins minni en síðustu ár. Keppnin hér er engu að síður mjög hörð, sér í lagi milli liða í 2.-12. sæti. KR drottnar enn yfir deildinni þetta tímabilið, Finnur og félgar eru að spila góðan körfubolta og þeir verða afar erfiðir viðureignar.
Hvað þjálfun varðar tel ég að við þjálfararnir getum hjálpað meira íslenskum leikmönnum, sérstaklega þeim yngri sem eru að mæta ferskir inn í Domino´s deildirnar. Við verðum að huga vel að þeim, kenna þeim eins mikið og við getum og hafa trú á þeim. Þetta er leiðin til þess að bæta þá sem leikmenn og leiðin til þess að styrkja körfuboltann í landinu,“ sagði Israel sem segir að erlendir atvinnumenn hjálpi vissulega til en…
 
„En hverjir eru það í raun og veru sem færa boltann upp á næsta plan, það eru heimamenn svo við skulum bara hefjast handa!“
 
Tindastólsliðinu gengur vel, einkum og sér í lagi sem nýliðum, ertu sáttur með stöðuna eins og hún er í dag hjá klúbbnum?
 
„Já ég er ánægður, við þurfum samt að vinna betur í því á æfingum og leikjum að halda einbeitingu allan tímann. Eins er mikilvægt að setja upp rétta dagskrá fyrir okkar hóp því við erum með þrjá mismunandi hópa innan liðsins. Yngri leikmenn eru einn hópur, eldri leikmenn eins og Helgi Rafn, Helgi Freyr og Svavar eru annar hópur og þriðji hópurinn er í erlendum leikmönnum. Hver þessi hópur hefur sína dagskrá og kemur saman með hana á æfingum,“ sagði Israel en hver eru markmið hans með liðið? Á Tindastóll möguleika á því að landa þeim stóra?
 
„Fyrsta markmið er að tryggja veru liðsins í úrvalsdeild, annað er að ná inn í úrslitakeppnina og eftir að þetta er í höfn, þá skulum við sjá til hvernig okkur gengur. Okkar markmið frá degi eitt er að taka einn dag í einu, leik fyrir leik. Við erum metnaðarfullir en auðmjúkir.
 
  
Myndir/ Jón Björn og Hjalti Árnason
Fréttir
- Auglýsing -