Ingi Þór Steinþórsson er sá þjálfari sem síðast varð Íslandsmeistari eftir oddaleik en það var árið 2010 sem hann stýrði Snæfell til 3-2 sigurs gegn Keflavík í úrvalsdeild karla. Það var þá fyrsti titill Hólmara. Við ræddum við Inga um þennan tíma og fengum smá innsýn í hvernig þetta var hjá Snæfell, hvernig menn undirbjuggu sig fyrir oddaleikinn og vitaskuld hleyptum við Inga ekki út í daginn án þess að rýna í oddaleik Grindavikur og Stjörnunnar sem fram fer í kvöld.
„Okkur hafði gengið ágætlega með Keflavík um veturinn og slegið þá útí undanúrslitum í bikar á þeirra eigin heimavelli. Við mættum til leiks eftir að hafa slegið KR út í undanúrslitum og Sean Burton kemur meiddur inn í lokaúrslitin. Við vorum til búnir að sjá hversu langt við gætum farið með Burton en töpuðum fyrsta leik eiginlega með þeirri tilraun. Eftir þetta tók við ævintýri ævintýranna með Jeb Ivey sem kom frá Finnlandi inn í liðið fyrir Burton,“ sagði Ingi Þór en Keflavík var með heimaleikjaréttinn í seríunni svo næst var haldið í Hólminn.
„Við náðum sannfærandi sigri í Hólminum, vitandi fyrir leik þrjú að við höfðum áður unnið í Keflavík þá áttum við hörkuleik þar sem lykilmenn fóru á kostum og komumst í 2-1 fyrir vikið. Við gátum orðið meistarar á heimavelli í fyrsta sinn í sögu félagsins. Við mættum í leik fjögur í Stykkishólmi, fullt hús, ólíklegustu menn komnir í jakkaföt og allir mættir til að taka þátt í veisluhöldum. Þetta varð blóðugur leikur þar sem Keflvíkingar voru einfaldlega betri en við. Snæfellsliðið átti þó töluvert inni eftir þennan leik.“
Þá var komið að sjálfum oddaleiknum og það í gini ljónsins á heimavelli Keflavíkur:
„Undirbúningurinn fyrir oddaleikinn hafði mikið með spennustig að gera, reynslan sem var í liðinu var mikil og sjálfur hafði ég verið í lokaúrslitum og unnið titilinn sem þjálfari. Þrír í mínum hópi höfðu orðið meistarar áður og við nýttum okkur reynsluna og náðum að einbeita okkur að því sem ætluðum okkur að gera. Mér fannst þetta Snæfellslið einmitt eiga svo mikið inni eftir leik fjögur í Stykkishólmi og það skilaði því að einbeitingin varð 100%. Við byrjuðum þennan leik lygilega, alveg sama hvað við gerðum, það virkaði! Við vorum bara allsráðandi í þessum leik og þetta varð okkar langbesti leikur á tímabilinu,“ sagði Ingi Þór en Hólmarar breyttu engu þennan daginn þrátt fyrir að um stóran oddaleik væri að ræða.
„Þennan dag náðum við að fókusera ótrúlega vel á þá hluti sem höfðu komið okkur á þennan stað. Við áttum útileikjaseríu dauðans gegn KR og fórum aðeins í það sem við höfðum gert í þeirri seríu. Um leið og þessi leikur fjögur var búinn var ekkert annað í stöðunni en að fara til Keflavíkur og gera hluti sem við höfðum gert áður, bara einu sinni enn.“
Ekkert kampavín
„Við pössuðum okkur á því að gera ekkert nýtt, fórum nákvæmlega eins í leikinn eins og alla aðra leiki. Við lögðum af stað á sama tíma, héldum rútínunni og það var enginn að hugsa neitt lengra en nákvæmlega þennan leik. Meira að segja eftir leikinn urðu svo vandræði…við vorum ekki með neitt kampavín til að skála í! Menn voru ekki einu sinni með öl í töskunni,“ sagði Ingi og ljóst að Snæfellingar voru ekkert að fara fram úr sér.
„Ég tek hattinn ofan fyrir Keflvíkingum sem voru búnir að kaupa kampavín og gáfu okkur það. Þeir héldu mjög vel utan um sigurhátíðina okkar og það á sínum eigin heimavelli. Það er erfitt að tapa og hvað þá að gefa kampavínið og halda utan um sigurhátíð fyrir andstæðinginn,“ sagði Ingi og ljóst að bæði honum og Hólmurum þótti nokkuð vænt um þessa drengilegu framgöngu Keflvíkinga.
Við slepptum ekki Inga Þór nema biðja hann um að rýna í stórslag kvöldsins, hvernig líst honum á oddaleikinn í Röstinni?
„Ég rokka á milli þess að Grindavík vinni og svo Stjarnan. Ég sagði í fyrstu að það lið sem ynni á útivelli yrði meistari og nú eru bæði lið búin að því. Ég tek undir með Teiti þjálfara Stjörnunnar þegar hann segir að oddaleikurinn er 50-50 leikur. Hann er í raun ekkert annað, það lið sem leggur sig meira fram í kvöld það vinnur þetta! Oddaleikur er bara veisla enda viljum við sem körfuknattleiksáhugafólk bara fá fimm leiki. Það lið sem heldur spennustiginu réttu og leggur meira á sig verður meistari. Stjörnumenn munu mæta einbeittir og Grindavík þarf að spila jafnvel enn betur en á fimmtudag til að vinna. Það er svo mikið af áskorunum fyrir framan bæði þessi lið að leikurinn ætti að verða stórkostlegur.“
Grindavík-Stjarnan
Oddaleikur í kvöld kl. 19:15
Hver verður Íslandsmeistari?
Mynd og viðtal/ [email protected]



