
Keflavíkurstúlkur sýndu á sér klærnar svo um munaði í kvöld gegn liði Hamars í 8 liða úrslitum Subwaybikarsins. 102-57 var lokastaða leiksins og sáu blómastúlkurnar úr Hveragerði aldrei til sólar í þessum leik.
Keflavík hóf leikinn strax frá fyrstu mínútu með miklum krafti og eftir skamma stund voru þær strax komnar með 10 stiga forskot. Keflavík leiddi með 12 stigum eftir fyrsta leikhluta 29-17. Á meðan var lið Hamars gersamlega heillum horfnar. Sóknarleikur þeirra var ótrúlega hugmyndasnauður en á móti var varnarleikur Keflavíkur stúlkna til fyrirmyndar og voru þær fastar fyrir. Sá varnarleikur veitti þeim 20 stiga forskot í hálfleik.
Í seinni hálfleik mátti eiga vona á meiri baráttu frá gestunum en þvert á setti Keflavík í næsta gír og gersamlega straujuðu yfir gestina. Fjórðungurinn endaði 20-7 og var síðasti fjórðungurinn í raun aðeins formsatriði að klára. Þrátt fyrir það slökuðu heimastúlkur ekkert á og pressuðu lið Hamars stíft allan völlinn og á tíma áttu gestirnir í stökustu vandræðum að koma boltanum yfir miðju. Sem fyrr segir endaði leikurinn í stórsigri heimastúlkna og eru þær komnar áfram í fjögura liða úrslit bikarsins í ár. Pálína Gunnlaugsdóttir átti stórleik hjá Keflavík og skoraði 27 stig.
Birna Valgarðsdóttir átti einnig mjög góðan leik þegar hún setti niður 19 stig og tók 13 fráköst fyrir heimastúlkur. “ Við ætluðum okkur sigur hérna í kvöld og það hafðist nokkuð auðveldlega. Það kom mér á óvart í raun hversu stór þessi sigur er en að samaskapi eins og ég sagði vorum við vel undirbúnar fyrir þennan leik því við ætlum okkur í úrslitaleikinn í ár.” sagði Birna Valgarðsdóttir eftir leik.



