09:30
{mosimage}
(Victoria að brjóta sér leið að körfu Grindvíkinga)
Victoria Crawford lék sinn fyrsta leik fyrir Hauka í gærkvöldi gegn Grindavík og átti hún góðan leik skoraði 42 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Þetta er í annað skipti sem hún kemur til Íslands á miðju tímabili en hún kom til Breiðabliks í fyrra. Þá var hennar fyrsti leikur heimaleikur gegn Grindavík eins og í gær. Að þessu sinni gekk liði hennar betur og hafði sigur 87-73. Victoria sagði eftir leikinn við Karfan.is að hún væri ennþá að aðlagast aðstæðum en hún var nokkuð sátt með eigin frammistöðu í leiknum.
,,Fyrsti leikur minn með Haukum var ágætur,” sagði Victoria en hún hefur verið að kljást við kvef síðan hún kom til Íslands. ,,Ég er með smá kvef en það er ekkert alvarlegt. Þetta er bara vegna þess að ég þarf að venjast andrúmsloftinu hérna á Íslandi.”
Victoria sagði að hún kæmi með reynslu og leiðtogahæfileika í lið sem hefur verið upp og niður í vetur. ,,Það snýst allt um vörnina. Ég mun reyna að hjálpa í vörninni og tala við stelpurnar. Ef við spilum góða vörn þá kemur sóknin í kjölfarið.”
Victoria lék fyrri hluta tímabilsins í Ísrael en hún hefur verið undanfarin mánuð í Bandaríkjunum. Hún sagði að enn vantaði eitthvað upp á leikformið hennar en hún hefur ekki leikið í mánuð. Með það í huga var hún ánægð með frammistöðu sína í leiknum. ,,Það gekk ágætlega. Ég held að ég hafi staðið mig vel miðað við fyrsta leik.”
Mynd: [email protected]



