spot_img
HomeFréttirVesturfararnir og úrslit síðustu leikjanna fyrir jól

Vesturfararnir og úrslit síðustu leikjanna fyrir jól

 
Ísland á veglega fulltrúa í körfuboltanum í hinni stóru Ameríku og þar rétt eins og annars staðar er skellt sér í búning og leitað að sigri svona á lokasprettinum fyrir jólin. Jafnan er nóg um að vera í bandaríska háskólaboltanum og loks þegar leiktíðin hefst þá er pakkinn þéttur en leiktímabilið þar hefst síðar á haustinu en hér heima og stendur oftar en ekki aðeins lengur inn í sumarið. 
Fimm íslenskir leikmenn leika með bandarískum háskólaliðum og fóru síðustu leikir þeirra fyrir jól sem hér segir:
 
Haukur Helgi Pálsson og félagar í Maryland höfðu öruggan sigur á NJIT skólanum þann 22. desember síðastliðinn. Lokatölur í leiknum voru 89-50 Maryland í vil. Haukur lék í 9 mínútur í leiknum og tók 4 fráköst ásamt því að gefa 1 stoðsendingu en hann náði ekki að skora í sinni einu skotttilraun sem var teigskot.
 
Helena Sverrisdóttir og TCU skólinn töpuðu síðasta leiknum sínum fyrir jól en hann fór einnig fram 22. desember. Georgia mætti þá í heimsókn í Daniel-Meyer Coliseum þar sem lokatölur voru 57-60 Georgia í vil. Helena hafði í nógu að snúast í leiknum og lék allar 40 mínúturnar og skoraði 14 stig, hún var einnig með 4 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Georgia átti síðustu sókn leiksins og settu niður þriggja stiga körfu þegar 3 sekúndur voru til leiksloka! Með sigri Georgia skólans lauk svo 27 leikja heimasigurgöngu hjá TCU.
 
María Ben Erlingsdóttir og UTPA skólinn fengu stóran skell á útivelli í síðasta leiknum fyrir jól sem fór fram þann 19. desember. Liðið mætti þá Wichita State og tapaði 95-55. María var ekki í byrjunarliðinu en lék í 25 mínútur og skoraði 4 stig ásamt því að taka 2 fráköst, gefa 1 stoðsendingu og stela 1 bolta.
 
Vésteinn Sveinsson og félagar í Marshalltown lönduðu góðum útisigri í 2. deild bandarísku háskóladeildarinnar. Leikurinn var gegn Ellsworth Community College og fór fram þann 8. desember en leikur sem Marshalltown átti að spila 11. desember féll niður sökum veðuraðstæðna. Í leiknum 8. desember var Vésteinn í stuði og skoraði 19 stig í 89-79 útisigri Marshalltown. Vésteinn var einnig með 4 fráköst og 1 stolinn bolta í leiknum en hann er nú kominn sterkur inn í lið Marshalltown þetta tímabilið eftir að hafa lítið fengið að spreyta sig á síðasta tímabili.
 
Árni Ragnarsson er enn að glíma við meiðsli og hefur því ekki verið með í síðustu leikjum hjá UAH Chargers sem hafa unnið þrjá leiki í röð og unnið 11 af síðustu 12 leikjum sínum. Síðasti leikur liðsins fyrir jól var þann 17. desember þar sem Chargers mættu Harding skólanum og höfðu betur 74-74 en Chargers leika í bandarísku 2. deildinni eins og Marshalltown.
 
Fréttir
- Auglýsing -