spot_img
HomeFréttirVesturbæjarvélin hikstaði en malaði samt sigur

Vesturbæjarvélin hikstaði en malaði samt sigur

KR-ingar hafa verið óstöðvandi á heimavelli og eru enn taplausir í DHL höllinni í vetur.  Þegar leikurinn í kvöld hófst var allt útlit fyrir að engin breyting yrði á því. Vesturbæjarvélin malaði eins og afslöppuð læða á meðan Snæfell barðist í bökkum og hefði ekki hitt í hafið úr sökkvandi bátskænu.
 
KR hitti ekki úr einu þriggja stiga skoti í 1. hluta en Snæfell voru engu skárri. KR-ingar nýttu þó flest sín færi innan þriggja stiga línunnar. Snæfell skoraði aðeins 0,64 stig per sókn. Staðan í hálfleik var 45-28 fyrir heimamönnum og allt útlit fyrir auðveldan sigur þeirra.
 
Hlynur Bæringsson tísti í lok fyrri hálfleiks og tjáði óánægju sína með liðið sitt gamla og heimtaði betrumbætur í þeim seinni.
 

 
Það var eins og við manninn mælt, Snæfell skellti í fluggírinn og tókst að komast 1 stigi yfir fyrir lok 3. hluta með magnaðri innkomu frá Pálma Frey sem setti niður 2 mikilvæga þrista á þessum tíma. 
 
Allt í einu voru KR-ingar í jöfnum leik og slagkrafturinn allur með Snæfelli, sem hafði yfirhöndina í leiknum allt þar til í lok leiks þegar einstaklingsframtakið fór að ráða völdum hjá þeim.
 
KR er lið sem ekki má taka augun af á meðan leikklukkan tifar. KR er lið sem þarf ekki nema örsmáa glufu til að smella inn einu rothöggi rétt áður en lotan klárast. ÍR-ingar kannast við þetta.
 
Þetta er nákvæmlega það sem gerðist í kvöld. Snæfell slakaði örlítið á tauminum og uppskar eftir því. Pálmi mótmælti harðlega dómi sem færði KR boltann þegar 2 mínútur voru eftir af leiknum og fékk í kjölfarið tæknivillu. Í kjölfarið komu 3 þristar frá KR og leikurinn tapaður.
 
KR innsiglaði baráttusigur 89-83 og hélt enn hreinu á heimavelli. Þeir sluppu þó með skrekkinn því þessi leikur hefði hæglega getað sloppið frá þeim og lífunum 9 á heimavelli fer fækkandi.
 
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells var stoltur af sínum mönnum þrátt fyrir að hafa þurft að láta í minni pokann fyrir meisturunum. “Við mættum bara allt of flatir til leiks í upphafi. Vörnin galopin en 2-3 svæði lagaði þetta eitthvað fyrir hálfleik. Pálmi átti svo frábæra innkomu í 3. hluta.”
 
Ingi sagði einstaklingsframtakið hafi svo skemmt fyrir í 4. hluta. “Ég gerði líka mistök og keyrði á fáum og skipti lítið,” bætti hann við.
 
Aðspurður um hversu veigamikið tæknivítið sem Pálmi fékk hafi verið svaraði Ingi “Pálmi er maður með mikla réttlætiskennd og ef hann kvartar þá er dómurinn rangur. Það sáu þetta allir í húsinu nema blessaðir dómararnir. Brynjar og Helgi refsuðu okkur svo bara fyrir vikið.”
 
Hann sagðist samt vera ákaflega stoltur af liðinu sínu. “Við tökum bara næsta leik. Eigum sterkt lið Njarðvíkinga á okkar heimavelli. Þeir koma örugglega dýrvitlausir eftir tapið í kvöld. Við hræðumst engan og ætlum í úrslitakeppnina.”
 
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR var fámæll í  lok leiks. “Við höfðum bæði tögl og hagldir en mættum allt of slakir út í seinni. Snæfell spilaði svo einfaldlega glimrandi í þriðja og framan af í fjórða.”
 
Aðspurður um varnarleikinn í upphafi seinni hálfleiks sagði hann vörnina hafa verið skelfilega, “36 stig í þriðja hluta er ekki ásættanlegt. Við vorum seinir aftur og eftir á í öllum okkar aðgerðum. En ákvarðanatakan batnaði á báðum endum vallarins í lok fjórða og loksins duttu skotin niður.”
 
 
MYND: Brynjar Þór Björnsson var drjúgur fyrir KR á lokasprettinum. (Einar Þröstur)
Fréttir
- Auglýsing -