spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaVestri sigraði Hamar í toppslagnum

Vestri sigraði Hamar í toppslagnum

Topplið Vestra og Hamars mættust í 1. deild karla á Jakanum á Ísafirði í gærkvöldi. Bæði lið höfðu unnið 4 af 5 leikjum sínum á tímabilinu og voru jöfn Þór Akureyri í efsta sæti deildarinnar.

Gangur leiksins
Gestirnir úr Hveragerði voru mikið sterkari í upphafi leiks og pressuðu stíft allan völlinn. Eftir 5 mínútna leik leiddi Hamar 17-5 og var Everage Richardson kominn með 9 stig og 3 stolna bolta á þessum kafla.

Þegar menn eru komnir ofan í holu þá er oft gott að hætta að moka og það höfðu heimamenn að leiðarljósi næstu mínúturnar. Leikstjórnandi Vestra, Nebojsa Knezevic, dró vagninn og skoraði 9 af næstu 17 stigum liðsins út leikhlutann en staðan í lok hans var talsvert skárri fyrir heimamenn en leit út fyrir að yrði um miðbik hans, eða 22-27 Hamar í vil.

Vestri hélt áfram að bæta í í öðrum leikhluta en Hamar réð þar ekkert við Vestfjarðatröllið Nemanja Knezevic sem skoraði 13 af 18 stigum sínum í leikhlutanum og tryggði heimamönnum 44-42 forustu í hálfleik. Undir lok fyrri hálfleiks fékk Nebojsa sína fjórðu villu og bjuggust því margir við að Hamar myndi ganga á lagið í seinni hálfleik með hann á bekknum en sú varð ekki rauninn. André Huges skilaði sínu og vel það í þriðja leikhluta og skoraði 11 stig. Haukur Hreinsson, Ingimar Baldursson og Hallgrímssynirnir Hugi og Hilmir stigu einnig vel upp í vörn og sókn en mest náði Vestri 11 stiga forustu í leikhlutanum og það án þess að Knezevic fóstbræðurnir skoruðu stig.

Hamarsmenn voru þó ekki hættir og unnu sig inn í leikinn aftur og náðu að jafna, 80-80, þegar nokkrar mínútur voru eftir. Lengra komust þeir þó ekki því Vestri náð forustunni strax aftur og Hugi Hallgrímsson átti svo risa blokk skömmu seinna er hann varði þriggja stiga tilraun Everage sem hefði komið Hamar yfir. Vestramenn héldu svo haus lokamínútuna og kláruðu leikinn örugglega frá vítalínunni.

Villuvandræði
Dómararnir höfðu nóg að gera í leiknum en fjórir leikmenn Hamars villuðu sig út af, þeir Marko Milekic, Oddur Ólafsson, Florijan Jovanov og Dovydas Strasunskas. Tvær af villum Dovydas voru óíþróttamannslegar villur og því fékk hann reisupassann og snemmbúna sturtuferð rétt fyrir leikslok.

Maður leiksins
Hinn þýsk-bandaríski André Huges átti sinn besta leik í Vestrabúningi en hann jafnaði sitt besta stigaskor í vetur með 24 stigum auk þess sem hann tók 15 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Helstu stigaskorarar
André var eins og fyrr segir stigahæstur hjá Vestra með 24 stig en næstur kom Nebojsa Knezevic með 20 stig. Vestfjarðartröllið Nemanja Knezevic bætti við enn einni tröllatvennunni með 18 stigum og 23 fráköstum og hinn 16 ára Hugi Hallgrímsson skoraði 14 stig og varði 3 skot.

Hjá Hamar var hinn frábæri skorari Everage Richardson stigahæstur með 36 stig, en hann leiðir einmitt deildina í stigaskorun með 32 stigum að meðaltali í leik. Marko Milekic kom næstur með 13 stig og 10 fráköst og Florijan Jovanov og Geir Elías Úlfur Helgason bættu svo báðir við 11 stigum hvor.

Hvað er næst?
Hamar mætir Fjölni á föstudaginn á meðan Vestri fer norðan heiða og mætir heimamönnum í Þór Akureyri á laugardaginn.

Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni

Fréttir
- Auglýsing -