spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaVestri með öruggan sigur á Sindra

Vestri með öruggan sigur á Sindra

Sindri frá Höfn í Hornafirði, sem er í ár að leika í 1. deild karla í fyrsta sinn, lagði á sig eitt mesta keppnisferðalagið í íslensku deildunum í ár er það mætti Vestra á Jakanum á Ísafirði í dag en landleiðin á milli bæjanna er 889 kílómetrar. Fyrir leikinn voru nýliðarnir enn sigurlausir í deildinni eftir þrjá leiki á meðan Vestri var í 5. sæti með 2 sigra og 1 tap.

Gangur leiksins
Eftir jafna byrjun þá stakk Vestri af í öðrum leikhluta og leiddi 52-35 í hálfleik. Sindri átti ágætis þriðja leikhluta er liðið skoraði 27 stig en það var of lítið og of seint og Vestramenn lönduðu að lokum öruggum 97-73 sigri.

Þrennan
Stoðsendingarkóngur 1. deildarinnar, Nebojsa Knezevic, var frábær í fyrri hálfleik en í honum var hann með 9 stig, 9 fráköst og 12 stoðsendingar. Þegar korter var eftir leiks var hann kominn með þrennu en hann endaði með 15 stig, 12 fráköst og 15 stoðsendingar í leiknum.

Flautukonsert
Dómarar leiksins höfðu nóg að gera en samtals flautuðu þeir 52 villur, 30 á Sindra og 22 á Vestra. Þrír leikmenn Sindra villuðu sig útaf á meðan tveir leikmenn Vestra fengu einnig fimm villur.

Maður leiksins
Vestfjarðatröllið Nemanja Knezevic var með sannkallaða tröllatvennu en hann skoraði 31 stig og tók 21 frákast í leiknum og setti hann niður 11 af 14 skotum sínum í leiknum. Hann var einnig öflugur í vörninni en hann varði 3 skot og truflaði einnig fjöldan allan af öðrum skotum gestanna undir körfunni sem þurftu að breyta skotum sínum í loftinu eða senda til að koma í veg fyrir að hann sendi skot þeirra á sporbaug.

Helstu stigaskorarar
Nemanja var stigahæstur hjá Vestra með 31 stig en á eftir honum komu Hugi Hallgrímsson og Nebojsa Knezevic með 15 stig hvor. André Huges var svo með 14 stig og 11 fráköst og Ingimar Baldursson bætti við 10 stigum.

Hjá Sindra voru Kenneth Fluellen og Barrington Stevens allt í öllu en Kenneth skoraði 26 stig og tók 12 fráköst en Barrington skoraði 25 stig. Hallmar Hallsson kom næstur með 9 stig og hinn 15 ára Tómas Orri Hjálmarsson skoraði 7 stig.

Hvað er næst?
Liðin mætast aftur á morgun á Jakanum kl 14:00 og verður leikurinn í beinni útsendingu á Jakinn TV.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -