spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaVestri með fyrsta sigurinn eftir stórleik Bosley í fjórða leikhluta

Vestri með fyrsta sigurinn eftir stórleik Bosley í fjórða leikhluta

Vestri vann sinn fyrsta sigur í Subwaydeild karla í kvöld er það lagði Þór Akureyri að velli á Jakanum á Ísafirði, 88-77. Þetta var jafnframt fyrsti sigur liðsins í efstu deild síðan 31. janúar 2014 er það spilaði undir merkjum KFÍ.

Fyrir leikinn höfðu bæði lið tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum og því mikilvægur leikur í botnbaráttunni. Þórsarar mættu laskaðir til leiks en Jordan Connors og Jonathan Lawton voru báðir frá.

Julio De Assis fór mikinn fyrir Vestra í upphafs leikhlutanum og skoraði þar 12 af 19 stigum sínum í leiknum. Hjá Þór var Dúi Jónsson beittastur með 7 stig og 3 stoðsendingar en Vestri vann leikhlutanum 20-19.

Vestri var skrefinu á undan næstu tvo leikhluta og fór inn í loka fjórðunginn með 10 stiga forustu, 69-59.

Gestirnir byrjuðu lokafjórðunginn talsvert betur en í stöðunni 69-65 tók Ken-Jah Bosley leikinn yfir en hann skoraði 16 af síðustu 19 stigum Vestra, þar af þrjár þriggja stiga körfur í röð sem Þór náði ekki að svara. Lokastaðan sem fyrr 88-77 og fyrsti sigur Vestra í vetur kominn í hús.

Bestur hjá Vestra var fyrrnefndur Bosley með 28 stig og 4 stoðsendingar en næstir voru Julio De Assis með 19 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar og Hilmir Hallgrímsson með 15 stig og 9 fráköst.

Hjá Þór var Dúi bestur með 25 stig og 8 stoðsendingar, Eric Etienne Fongue var með 19 stig og Atle Ndiaye var með 18 stig og 7 fráköst.

Vestri mætir næst Val 28. október á meðan Þór mætir Stjörnunni degi seinna.

Fréttir
- Auglýsing -