spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaVestri lagði toppliðið á Jakanum

Vestri lagði toppliðið á Jakanum

Topplið Grindavíkur hélt vestur á Ísafjörð í kvöld þar sem það mætti heimamönnum í Vestra. Það var ekki að sjá að liðin væru á sitthvorum endanum í deildinni því heimamenn leiddu nánast allan leikinn og unnu að lokum öruggan fimmtán stiga sigur, 86-71.

Líkt og í leik Vestra á móti Tindastól í síðustu umferð þá byrjuðu þeir frábærlega í fyrsta leikhluta og leiddu eftir hann 25-17. Þeir náðu mest fjórtán stiga forustu í öðrum leikhluta áður en Grindvíkingar vöknuðu til lífsins og náðu muninum niður í fjögur stig í hálfleik.

Vestramenn byrjuðu einnig betur í þriðja leikhluta og komust í níu stiga mun þegar mest lét. Grindvíkingar hleyptu þeim þó aldrei lengra frá sér og náðu muninum niður í þrjú stig, 66-63 fyrir lokafjórðunginn.

Þegar um sjö mínútur lifðu leiks komust Grindvíkingar yfir í fyrsta sinn í leiknum eftir körfu frá Ivan Aurrecoechea. Sú forusta entist þó ekki lengi því tíu sekúndum seinna setti Hilmir Hallgrímsson niður þriggja stiga körfu og kom Vestra aftur í bílstjórasætið. Nemanja Knezevic setti svo niður þriggja stiga körfu stuttu seinna áður en Ivan minnkaði muninn í 72-71. Það reyndust lokastig Grindvíkinga í leiknum og kláruðu heimamenn síðustu fimm mínútur leiksins á 14-0 áhlaupi.

Vestfjarðatröllið Nemanja Knezevic var stigahæsti maður vallarins en hann endaði með 21 stig, 14 fráköst og þó nokkur varin skot sem þó enduðu ekki öll á tölfræðiskýrslunni. Julio De Assis kom honum næstur með 20 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar og Marko Jurica skoraði 18 stig.

Hjá Grindavík var Elbert Matthews stigahæstur með 19 stig, Ivan Aurrecoechea kom honum næstur með 18 stig og 14 fráköst og Naor Sharabani setti í þrefalda tvennu með 14 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar.

Vestri á næst leik á móti Njarðvík í Ljónagryfjunni 3. desember næstkomandi á meðan Grindavík mætir næst Stjörnunni degi seinna.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -