spot_img
HomeFréttirVestri heldur áfram að rúlla á útivelli

Vestri heldur áfram að rúlla á útivelli

FSu tók á móti Vestra í íþróttahúsi Hrunamanna á Flúðum í kvöld. Fyrir leikinn höfðu Vestramenn landað sínum fyrsta útisigri tímabilsins gegn Gnúpverjum og vildu freista þess að bæta útileikjasigurhlutfallið enn frekar. FSu vildi sækja sinn fyrsta heimasigur en það varð því miður ekki í kvöld. Þeir héldu illa í við Vestra í seinni hálfleik og gestirnir lönduðu 14 stiga sigri, 74-88.
 

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrstu og liðin skiptust á að hitta og ákefðin á báðum endum vallarins sást vel. Hvorugt liðið hafði forystuna þegar fyrsta leikhlutanum lauk og stigin voru að dreifast vel á leikmenn beggja liða. Liðin fóru inn í annan leikhlutann í stöðunni 19-19 og gestirnir settu fljótt í annan gír sem FSu átti erfitt með að fylgja í fyrstu. Þrír Vestramenn settu þrista og stíf vörn þeirra skilaði 9 stiga forystu á fyrstu fimm mínútum annars fjórðungs, en þeir voru líka duglegir að refsa heimamönnum með hraðaupphlaupum, jafnvel eftir skoraðar körfur. FSu gátu hins vegar lagað stöðuna aðeins á seinni fimm mínútunum með góðu framlagi frá Charles Jett Speelman (hann skoraði 16 stig í fyrri hálfleik) og fleirum. Í hálfleik var staðan 40-45, Vestra í vil.

Fyrstu 6-7 mínúturnar af seinni hálfleiknum voru nokkuð jafnar og FSu hleyptu Vestra aldrei of langt fram úr sér. Svo fór aðeins að draga af heimamönnum og Vestfirðingar náðu að ganga á lagið og juku muninn í 16 stig á tímabili. Vestramenn höfðu breytt byrjunarliðinu sínu í seinni hálfleiknum til að takmarka Speelman betur og það hafði tilætluð áhrif því hann skoraði ekki stig í þriðja leikhlutanum. Staðan var 57-69 þegar lokafjórðungurinn hófst og heimamenn byrjuðu á að minnka muninn í 7 stig á fyrstu mínútunum. Þeir komust þó ekki nær en það því Vestri skellti í lás og juku muninn í 18 stig á nokkrum mínútum. Það varð ekki aftur snúið eftir þetta og varamenn beggja liða spiluðu seinustu mínútur leiksins. Vestri vann leikinn 74-88.
 

Þáttaskil

Skilin urðu í hálfleiknum þegar Vestri ákváðu að hefja seinni hálfleik með Ágústi Angantýssyni, nýjum (og gamalreyndum) leikmanni liðsins. Nökkvi Harðarson, fyrirliði Vestra, lét honum byrjunarsætið eftir í seinni hálfleik til að gestirnir gætu varist Speelman betur og það hafðist. Mjög afgerandi breyting sem skilaði liðinu sigri.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Fráköst Vestramanna skiluðu þeim sigrinum að þessu sinni ásamt betri skotnýtingu. Heimamenn tóku aðeins 32 fráköst gegn 50 fráköstum Vestra og 19 sóknarfráköst gestanna skiluðu sér líka í 10 fleiri skotum utan af velli. Sterkt framlag af bekk Vestra (23 framlagsstig bekkjar Vestra gegn 11 hjá bekk FSu) var líka nokkuð stórt.
 

Blossi kvöldsins

Ingimar Aron Baldursson átti flottan leik í kvöld sem hófst með látum. Á fyrstu 12 mínútum leiksins hitti hann úr einu tveggja stiga skoti, var 4/6 í þristum, varði eitt skot og stal einum bolta. Hann skoraði á heildina 23 stig, hitti 5/12 í þristum (41,7%), tók 2 fráköst, varði eitt skot og stal einum bolta. Hann var næst framlagshæstur í leiknum með 20 framlagsstig. Flottur leikur hjá þessum unga leikmanni.
 

Nýjir/gamlir leikmenn

Ágúst Angantýsson og Hinrik Guðbjartsson spiluðu báðir fyrir Vestra í kvöld. Þeir hafa áður spilað fyrir liðið en lítið á þessu tímabili; Ágúst spilaði fyrir liðið þegar það hét KFÍ árið 2013-2014 og Hinrik spilaði fyrir Vestra í fyrra en þetta var hans fyrsti leikur á þessu tímabili. Í FSu eru þeir Ragnar Gylfason og Helgi Jónsson búnir að taka skónna aftur fram eftir mislanga fjarveru; Ragnar, eldri bróðir Ara Gylfasonar, spilaði seinast leik fyrir FSu árið 2009 og Helgi spilaði fyrir FSu/Hrunamenn/Laugdæli í fyrra en þetta er hans fyrsti leikur á þessu tímabili.
 

Kjarninn

Þá eru Vestri komnir með annan útisigurinn sinn og gætu komið sér í enn betri stöðu fyrir jólafríið með enn öðrum útisigri, að þessu sinni gegn Fjölni í Dalhúsum. FSu eru enn að leita að sínum fyrsta heimasigri og það virðist ekki hafa dugað að spila leikinn á Flúðum. Tveir heimaleikir Selfyssinga verða leiknir þar á tímabilinu til að körfuknattleiksáhangendur á Flúðum fái smá skerf af körfuboltanum á Suðurlandinu. Næsti leikur á Flúðum verður þó ekki nærri strax og framundan er útileikur gegn "nágrönnum" FSu, Gnúpverjum, í Fagralundinum í Kópavogi. Það verður gott tækifæri fyrir FSu-menn að taka annan útisigur sinn og halda inn í jólafríið á góðum lokaleik ársins 2017.
 

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

 

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -