Fjórða úrslitaviðureign Grindavíkur og KR fer fram í Röstinni í Grindavík í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19:15 og geta KR-ingar með orðið Íslandsmeistarar! Staðan í einvíginu er 2-1 KR í vil eftir stórsigur vesturbæinga í þriðja leiknum í DHL-Höllinni. Takist Grindavík að landa sigri í kvöld verður oddaleikur í DHL-Höllinni á laugardag.
KR vann fyrsta leikinn 93-84 og tók 1-0 forystu, í næsta leik í Röstinni jöfnuðu Grindvíkingar með 79-76 sigri og í þriðja leiknum komust Grindvíkingar hvorki lönd né strönd gegn KR þar sem lokatölur voru 87-58 fyrir KR, lægsta stigaskor á tímabilinu leit dagsins ljós hjá Grindvíkingum og staðan 2-1 fyrir KR.
Eins og flestum er kunnugt eru Grindvíkingar Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára og á höttunum eftir sínum þriðja titli í röð og jafnframt þeim fjórða í sögu félagsins. KR hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari eftir úrslitakeppnina og eiga því séns á sínum sjötta titli, hann verður líkast til þeirra ef Grindvíkingar hafa ekki þá þegar gengist undir ítarlega naflaskoðun eftir leik þrjú.
KR-ingar ætla sér að fjölmenna í Röstina í kvöld en sætaferðir verða í boði í dag frá Frostaskjóli kl. 17:15 og kostar kr. 1500 í rúturnar.
Mætið tímanlega, það verður pakkað!
Grindavík-KR
Leikur 4 – kl. 19:15 í kvöld
Bein útsending á Stöð 2 Sport