spot_img
HomeFréttirVerður Hanna með Val í kvöld?

Verður Hanna með Val í kvöld?

15:28
{mosimage}

(Hanna B. Kjartansdóttir)

Endurkoma Hönnu B. Kjartansdóttur í efstu deild kvennakörfunnar hefur legið í loftinu síðan í haust en Hanna er þaulreynd fyrrum landsliðskona sem unnið hefur allt sem hægt er að vinna hér heima. Hanna ætlar sér að reyna endurkomu með Val en síðast lék hún með ÍS leiktíðina 2006-2007 og þá gerði hún að jafnaði 8,8 stig í leik í 18 deildarleikjum ÍS. Eftir þarsíðustu leiktíð var kvennalið ÍS lagt niður og leikmennirnir örkuðu yfir í Vodafonehöllina og spila nú þar flestar undir merkjum Vals. Í kvöld er svo komið að stóru stundinni þegar Valskonur heimsækja KR í gríðarmikilvægum leik kl. 19:15 í DHL-Höllinni sem skiptir öllu máli fyrir bæði lið upp á skiptinguna í A og B hluta deildarinnar.

,,Nú hefur fingurbrotið verið að jafna sig og ég er búin að mæta á nokkrar æfingar hjá Val og ég vonast til að geta klárað tímabilið með þeim. Andinn í liðinu er góður og Rob er frábær þjálfari sem hægr er að læra margt af,“ sagði Hanna og bætti við að það væri virkilega gaman að vera komin aftur af stað í boltann.

,,Leikurinn gegn KR í kvöld er mjög mikilvægur en ég veit nú ekki hvort ég spili leikinn, geri það ef ég kemst í liðið,“ sagði Hanna í léttum tón en Hanna er Valskonum væntanlega kærkomin búbót þar sem Tinna B. Sigmundsdóttir mun í kvöld væntanlega leika sinn síðasta leik með Val þetta árið þar sem hún er að flytja til Danmerkur.

Hanna spilaði reyndar þrjá síðustu leiki tímabilsins í fyrra og var með 7,7 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali á 23,0 mínútum. Hún nýtti 58,8 prósent skota sinna og stal 2,0 boltum í leik. Hanna skoraði einnig 17 stig í bikarleik gegn Haukum með KR-b fyrr á þessu tímabili. Hanna hefur alls leikið 214 leiki í efstu deild kvenna og skorað í þeim 2788 stig.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -