FIBA Europe með stuðningi FIBA stendur nú í stórræðum en stórþjóðir í körfuknattleik á borð við Spán, Króatíu og Serbíu gætu átt það á hættu að fá ekki að taka þátt í EuroBasket 2017 og Ólympíuleikunum í Ríó ef af verður. Ástæðan er deila FIBA Europe sem er regnhlíf alls körfubolta í Evrópu við Euroleague sem er einkafyrirtæki sem heldur úti stærstu Evrópukeppni félagsliða. FIBA Europe og Euroleague standa í málaferlum þessi dægrin en þessar tvær einingar eiga að baki um tveggja áratuga deilu.
Stjórn FIBA Europe ákvað í mars síðastliðnum að hvert það sérsamband sem styddi við bakið á Euroleague myndi sjálfkrafa missa réttinn til þess að taka þátt í landsliðsverkefnum, verkefnum sem eru á vegum FIBA Europe eins og EuroBasket og Ólympíuleikunum.
Deila FIBA Europe og Euroleague snýr að því að allir af stærstu klúbbum álfunnar séu í meistardeild Euroleague og þar eru umtalsverðir fjármunir í húfi. FIBA Europe telur sig einnig eiga útistandani fjármuni hjá Euroleague ásamt öðrum atriðum eins og að klúbbakeppni á Evrópustigi eigi klárt og skýrt heima undir hatti FIBA Europe en ekki einkaaðila.
Átta lönd hafa samning við Euroleague og þau eru Bosnía, Króatía, Makedónía, Svartfjallaland, Rússland, Serbía, Slóvenía og Spánn. Þeim verður öllum meinaður aðgangur að EuroBasket 2017 og Ólympíuleikunum í sumar.
Í dag rennur svo út sá frestur sem FIBA Europe gaf þessum 14 löndum í heildina til þess að sýna fram á að samningur sérsambanda þessara landa við Euroleague sé ekki í gildi. Takist það ekki eru Evrópuverkefni og Ólympíuleikarnir úr sögnunni hjá þessum þjóðum!
Grikkland, Ítalía, Litháen, Pólland og Tyrkland hafa einnig fengið tilkynningu um málið þar sem þau munu í júlí öll taka þátt í lokakeppni um laust sæti á Ólympíuleikunum í Ríó. Gríðarlegur sjónarsviptir yrði af þjóð eins og Spánverjum af stóra sviðinu en liðið er silfurverðlaunahafi frá Ólympíuleikunum í London og ríkjandi Evrópumeistari.
Rekja má málið aftur til ársins 2000 þegar Euroleage sleit klúbba frá FIBA Europe og setti upp nýja klúbbakeppni. FIBA Europe hefur nú svarað, sótt Euroleague til saka vegna útistandandi skulda m.a. og sett á laggirnar „Champions League“ sem hefst næsta haust og verður hin nýja meistaradeild innan FIBA Europe.
Eina leiðin til þess að taka þátt í verkefnum á borð við EuroBasket og Ólympíuleika verður, skv. afstöðu FIBA Europe, að slíta sig frá Euroleague og fara inn í verkefni FIBA Europe (Chmapions League). Mál þessara eininga eru fyrir borði Evrópusambandsins og segir Euroleague að FIBA Europe hafi brotið samkeppnislög Evrópusambandsins með því að setja Champions League á laggirnar. FIBA Europe segir þá fullyrðingu eintóman reyk og segir ECA beita pressu á deildir og klúbba sem og að eyðileggja auglýsinga- og keppnisgrundvöll landsdeildanna með því að handvelja stórlið inn í keppnina.
Í tilkynningu frá FIBA Europe sagði m.a.: „ECA (Euroleague) vill uppskera það sem körfuboltasamfélagið í Evrópu hefur sáð án þess að leggja sjálft nokkuð til grunnstoða íþróttarinnar. Þá halda þeir landsliðum í gíslingu til þess að þjóna hagsmunum örfárra risaklúbba,“ sagði m.a. í tilkynningu FIBA.