spot_img
HomeFréttirVerða Keflvíkingar Íslandsmeistarar í kvöld?

Verða Keflvíkingar Íslandsmeistarar í kvöld?

 
Keflavík og Njarðvík mætast í sinni þriðju viðureign í úrslitum Iceland Express deildar kvenna í kvöld en leikurinn hefst kl. 19:15 í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ. Staðan í einvíginu er 2-0 Keflavík í vil sem með sigri í kvöld verða Íslandsmeistarar. Njarðvíkursigur þýðir fjórða viðureign í Ljónagryfjunni á sunnudag.
Þó Keflavík leiði 2-0 hafa leikirnir verið jafnir og spennandi. Keflavík stal fyrsta leiknum 74-73 um leið og lokaflautið gall en þar var eljusemi Lisu Kircic gullsígildi og í öðrum leiknum voru Keflvíkingar í bílstjórasætinu og unnu naumt 64-67 þrátt fyrir að hafa aðeins gert fjögur stig í fjórða leikhluta.
 
Ef Keflavík vinnur í kvöld landar liðið sínum fjórtánda Íslandsmeistaratitli í efstu deild kvenna og kemst þannig fram úr KR og verður sigursælasta lið Íslandsmótsins. Ef bikartitillinn er tekinn með þá hefur Keflavík unnið hann 12 sinnum en KR 10 sinnum svo óumdeilt, sama hvort Keflavík verður meistari eða ekki, státar félagið af sigursælsta kvennaliði landsins.
 
Keflavík-Njarðvík
Leikur 3 í úrslitum kvenna
kl. 19:15 í Toyota-höllinni í kvöld
 
Fjölmennum á völlinn!
 
Fréttir
- Auglýsing -