Lokakeppnisdagur EuroBasket 2013 fer fram í Slóveníu í dag. Fyrri leikur dagsins er bronsviðureign Spánar og Króatíu en sjálfur úrslitaleikurinn hefst þar strax á eftir en þá eigast við Frakkland og Litháen. Bronsleikurinn hefst kl. 15:30 að íslenskum tíma og úrslitaleikurinn kl. 19:00.
Frakkar hafa aldrei orðið Evrópumeistarar og geta því með sigri í kvöld skráð sig á spjöld sögunnar. Litháar hafa hinsvegar orðið Evrópumeistarar þrisvar sinnum og síðast árið 2003. Ef Frakkar vinna í kvöld verður það í fyrsta skipti í 20 ár sem lið verður Evrópumeistari í fyrsta sinn eða síðan 1993 þegar Þjóðverjar urðu óvænt meistarar.
Tony Parker verður höfuðverkur fyrir Litháa og líklegast að Mantas Kalnietis verði settur honum til höfuðs. Þá er fyrirséð að Frakkar verði í vandræðum með Linas Kleiza sem hefur farið vaxandi með hverjum leiknum í Slóveníu.
Þar sem íslenskir fjölmiðlar sýna ekki beint frá Evrópumeistaramótinu þá viljum við benda á að hægt er að kaupa sér aðgang að beinum netútsendingum með því að smella hér.



