Ágæti lesandi, velkominn á nýjan og breyttan vef karfan.is.
Það er skemmtilegt að vera hluti af hóp þar sem menn keppast við að gera vel og fórna stórum hluta frítíma síns til að ná lengra. Þannig hef ég upplifað það að vera hluti af karfan.is og að vera komnir með vefinn í nýtt útlit sýnir enn betur að hópurinn stefnir alltaf hærra.
Það var haustið 2006 sem ég kom fyrst að karfan.is, mikið af íslenskum leikmönnum voru komnir í atvinnumennsku í Evrópu og ég tók mig til og skrifaði smá pistla sem ég sendi á fjölmiðla til að minna á leikmennina. Einn þessara miðla var karfan.is sem þá var tiltölulega ungur. Svo gerðist það að eigandinn og ritstjórinn, Jón Björn Ólafsson, var á leið til Ástralíu, m.a. til fundar við Luc Longley. Skömmu áður sendi hann mér línu og spurði hvort ég vildi ekki aðgang til að setja fréttirnar inn sjálfur. Þar með byrjaði boltinn að rúlla og í dag er karfan.is órjúfanlegur hluti af deginum hjá manni. Ábendingar um efni eru nánast óþrjótandi og greinilegt að þörfin fyrir vef sem þennan er gríðarleg.
Körfuboltafólk hefur undanfarin ár kvartað yfir sinnuleysi íslenskra fjölmiðla. Ég hef stundum sagt að við verðum að byrja heima hjá okkur, gera íþróttina okkar áhugaverða fyrir fjölmiðla og ýta að þeim efni í sífellu til að minna þá á. Þannig tel ég að karfan.is hafi virkað, það er mitt mat og fleiri að umfjöllun um körfubolta hefur aukist í íslenskum fjölmiðlum. En við megum ekki láta staðar numið, við eigum að stefna hærra.
Íslenskur körfubolti er ein stór fjölskylda sem þarf að vinna saman að því að gera íþróttina okkar áhugaverðari fyrir alla, þannig fáum við meiri umfjöllun, fleiri áhorfendur og meiri peninga til að við getum gert enn betur. Þetta kostar jú allt peninga. Við á karfan.is teljum okkur vera hluta af þessari fjölskyldu sem inniheldur einnig leikmenn, þjálfara, dómara, stjórnarmenn og fleiri og fleiri hópa.
Eins og ég nefndi fyrr hefur karfan.is verið órjúfanlegur hluti af deginum hjá mér síðastliðin tvö ár. Það er ótrúlega gaman að geta gefið af sér og fá jafn jákvæða strauma til baka eins og maður hefur fundið í kringum karfan.is. Hrósið eru jú einu launin sem maður fær fyrir þetta enda er vefurinn rekinn í 100% sjálfboðavinnu og mun verða það um ókomna framtíð. Það gerist því stundum að maður karfan.is lendir aðeins neðar í forgangsröðinni, maður þarf að sinna fjölskyldu, vinnu og þess háttar. En þörfin fyrir að miðla fréttum er alltaf til staðar og efnistökin eru næg.
Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn við karfan.is undanfarin ár, þessi vefur er ekkert án allra þeirra sem vilja leggja eitthvað af mörkum við að gera íþróttina stærri og áhugaverðari. Þá hefur verði frábært hversu liðleg mörg félög eru við okkur með því að fóðra okkur á fréttaefni, jafnvel áður en það gerist svo við séum viðbúnir. Því eins og ég sagði áðan, við erum ein stór fjölskylda og eigum að vinna saman að því að gera körfuboltann áhugverðari og stærri.
Með ósk um áframhaldandi samstarf og að þið lesendur haldið áfram að njóta þess sem við höfum fram að færa.
Rúnar Birgir Gíslason
Fréttastjóri Karfan.is
[email protected]
[email protected]




