spot_img
HomeFréttirVel stemmdir Njarðvíkingar í Ásgarði

Vel stemmdir Njarðvíkingar í Ásgarði

Það var boðið upp á hörkuleik er toppliðin í 1. deild kvenna mættust í Garðabæ, Njarðvíkurstelpur ósigraðar á toppnum og Stjörnustelpur í 2. sæti. Njarðvíkurstelpur mættu hrikalega vel stemmdar til leiks og það sást ekki að þær hefðu nýverið misst sinn sterkasta leikmann en eins og komið hefur fram áður þá mun erlendur leikmaður þeirra ekki spila meira með liðinu þar sem hún er ólétt. 
 
Njarðvík spilaði hrikalega vel saman sem lið sem endaði með auðveldum körfum eða galopnum þriggja stiga skotum og nýtingin var frábær, 5 þristar úr 8 skotum og leiddu þær með 7 stigum eftir 1. leikhluta. Stjörnustelpur komu þó sterkar inn í 2. leikhluta og nýttu sér betur hæðina sem er í stjörnuliðinu og með magnaðri flautukörfu frá miðju í lok leikhlutans frá Söru Diljá Sigurðardóttur tókst þeim að minnka muninn í 1 stig þegar flautað var til hálfleiks, 38-39.
 
Sama baráttan hélt áfram í 3. leikhluta en njarðvíkurstelpur voru ávallt skrefi á undan og Stjarnan að elta. Um miðjan 4. leikhluta fékk Stjarnan tækifæri til að jafna er Bára skoraði 2 stig og fékk víti að auki og var þá staðan 58-59. En Bára klikkaði úr vítinu og Stjarnan fékk nokkur tækifæri til að skora og komast yfir en í staðinn var það Júlía Scheving Steindórsdóttir sem setur þrist fyrir Njarðvík og kemur þeim 4 stigum yfir. Eftir það kom fát á Stjörnuna sem voru að flýta sér of mikið og Njarðvík hélt haus og kláraði leikinn örugglega með öðrum þrist frá Björk Gunnarsdóttur og svo vítaskotum frá bæði Júlíu og Björk.
 
Njarðvík vann leikinn verðskuldað. Þær mættu tilbúnar til leiks, spiluðu agaðan og flottan körfubolta og fóru ekki á taugum þótt illa gengi á köflum. Stjarnan var mjög óþolinmóð í sínum aðgerðum og virtust oft ráðlausar í sókninni það, ásamt 18 töpuðum boltum í seinni hálfleik gerði Njarðvík auðvelt fyrir að klára leikinn.
 
Erfitt er að taka einn leikmann út hjá Njarðvík sem besta mann leiksins því það var liðsheildin sem stóð upp úr en ef það ætti að nefna einhvern nöfn þá væri það Júlía Scheving Steindórsdóttir (15 stig, 6 fráköst), Andrea Björt Ólafsdóttir (6 stig, 13 fráköst) og Erna Hákonardóttir (14 stig).
 
Hjá Stjörnunni var Bryndís Hanna Hreinsdóttir stigahæst með 20 stig, Bára Fanney Hálfsdánardóttir með 16 stig og 8 fráköst og Sara Diljá Sigurðardóttir með 14 stig og 8 fráköst.
 
  
 
 
Fréttir
- Auglýsing -