spot_img
HomeFréttirVeislunni lokið: KR meistari eftir rafmagnaðan oddaleik! (Umfj.)

Veislunni lokið: KR meistari eftir rafmagnaðan oddaleik! (Umfj.)

23:14
{mosimage}

(Fannar Ólafsson fyrirliði KR smellir einum rembingskossi á Íslandsmeistarabikarinn)

Í annað sinn á þremur árum fór Íslandsmeistaratitillinn í Iceland Express deild karla á loft í DHL-Höllinni frammi fyrir kjaftfullum áhorfendapöllum. KR-ingar eru Íslandsmeistarar leiktíðina 2008-2009 eftir frækinn 3-2 sigur á Grindavík en liðin mættust í kvöld í rafmögnuðum oddaleik sem lauk með 84-83 sigri KR. Grindvíkingar áttu síðustu sókn leiksins en vörn KR stóðst áhlaupið og er leikklukkan rann út hljóp Fannar Ólafsson um víðan völl með leikboltann og fagnaði af mikilli innlifun líkt og aðrir Vesturbæingar. Fannar lét boltann ekki frá sér það sem eftir lifði kvölds í DHL-Höllinni. Jón Arnór Stefánsson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar en kappinn hefur leikið fantavel fyrir KR-inga í vetur og sýnt körfuknattleiksáhugafólki hvernig leikmenn í fremstu röð framkvæma hlutina.

Talið er að um 2000 manns hafi mætt á leikinn og voru lætin eftir því og leikurinn sjálfur var svo þvílíkur rjómabúðingur að allir fengu vel fyrir aurinn í þetta skiptið. Einvígi þessara liða, KR og Grindavíkur, verður lengi í manna minnum og hafði gamla körfuboltakempan og KR-ingurinn Einar Bollason það á orði við Karfan.is að sjaldan hefði sterkara lið unnið til silfurverðlauna en Grindavík gerði nú.

Páll Axel Vilbergsson var í byrjunarliði Grindavíkur í fyrsta sinn í seríunni í kvöld en það var liðsfélagi hans Arnar Freyr Jónsson sem opnaði leikinn með tveimur stigum fyrir Grindavík. Jakob Örn Sigurðarson var til í tuskið frá fyrstu sekúndu og gerði fyrstu stig KR með þriggja stiga körfu. Hann átti eftir að gera fleiri slíkar í kvöld.

Liðin voru hörð í horn að taka og var nokkuð flautað á þau fyrir vikið og snemma í fyrsta leikhluta voru liðin komin í skotrétt. Nick Bradford hélt áfram að skelfa vörn KR með beittum gegnumbrotum og Páll Kristinsson var duglegur að spila sig lausan og gerði góðar körfur í teignum. KR-ingar voru þó ákveðnari og með þriggja stiga körfu frá Jakobi Erni komst KR í 24-18 en leikhlutanum lauk í stöðunni 24-20 fyrir KR og ljóst að framundan væri leikur sem væri í meira lagi eftirminnilegur.

Þristarnir frá Jakobi héldu áfram að koma og með einum slíkum leiddu KR-ingar 29-20 og þeir Jón Arnór Stefánsson og Pálmi Freyr Sigurgeirsson fylgdu báðir í kjölfarið með þrista og heimamenn leiddu 35-22 á meðan Grindavíkurvörnin var á hælunum. Gestirnir tóku leikhlé og að því loknu hófu þeir að saxa á forskotið.

Brenton Birmingham var lengi í gang í kvöld og gerði sín fyrstu stig í leiknum þegar tæpar fimm mínútur voru til hálfleiks og þá minnkaði hann muninn í 40-27. Fram að hálfleik leituðu Grindvíkingar mikið að Nick Bradford en eins og flestir vita kann hann vel við sig í DHL-Höllinni og skilaði því mikilvægum körfum fyrir sína menn.

{mosimage}
(Benedikt Guðmundsson var að vonum sáttur í leiksloka)

Brenton minnsti svo hressilega á sig er hann gerði fimm síðustu stig Grindavíkur í öðrum leikhluta. Fyrst með þrist sem minnkaði muninn í 48-42 og síðar með gegnumbroti um leið og hálfleiksflautan gall og því stóðu leikar 50-44 fyrir KR.

Í liði KR var Jakob Örn Sigurðarson með 16 stig í hálfleik og Jón Arnór Stefánsson var með 12. Hjá Grindavík var Nick Bradford með 16 stig en Páll Kristinsson var kominn með 10.

Strax í síðari hálfleik var ljóst að KR-ingar myndu glíma við töluverð villuvandræði og ekki leið á löngu uns Helgi Magnússon fékk sína fjórðu villu. Jason Dourisseau fór ansi oft illa með Grindavíkurvörnina en kappinn er gríðarlega erfiður viðureignar þegar hann bregður undir sig betri fætinum og fáir sem standast honum snúning í háloftunum.

Jón Arnór Stefánsson sleit KR aðeins í burtu frá gestum sínum um miðjan þriðja leikhluta er hann keyrði upp endalínuna og lagði boltann í netið og fékk villu að auki og skoraði úr vítinu. Staðan var þá 60-47 KR í vil. Við þetta hertu Grindvíkingar róðurinn enn eina ferðina og hófu að skera niður forskotið.

Nick Bradford gerði tvær stórar þriggja stiga körfur í röð fyrir gula og staðan var skyndilega orðin 61-56 en gegn honum var Skarphéðinn Ingason sem átti sterka innkomu hjá KR í kvöld á meðan þeir Jason, Helgi og Fannar hvíldu sig á bekknum allir með fjórar villur. Nick var einfaldlega of stór biti fyrir Skarphéðinn og KR-inga og því náðu gulir að minnka muninn í 68-66 en þar var Arnar Freyr Jónsson að verki er hann skoraði eftir gegnumbrot og fékk villu að auki. Arnar Freyr var með 9 stig og 5 stoðsendingar í kvöld og lék á köflum góða vörn en KR-ingar gerðu honum lífið leitt enda bakvarðasveit þeirra röndóttu talsvert hærri og því fóru bakverðir KR oft niður á blokkina þegar Arnar var til varnar og áttu þar greiða leið að körfunni.

{mosimage}
(Jón Arnór Stefánsson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar, með honum á myndinni er Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ)

Bandaríkjamaðurinn Jason Dourisseau lét ekki veru sína á bekknum í þriðja leikhluta kæla sig niður heldur setti hann strax niður þrist fyrir KR í upphafi fjórða leikhluta og kom sínum mönnum í 71-66 og lætin í DHL-Höllinni orðin nánst óbærileg.

Ísmaðurinn, Helgi Jónas Guðfinnsson, svaraði fyrir gula með þrist strax í næstu sókn og minnkaði muninn í 71-69 og við það upphófst æsilegur lokasprettur. Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður hægðist nokkuð á stigaskorinu enda taugarnar þandar og enginn á vellinum sem vildi gerast sekur um hin minnstu mistök.

Þegar 3.49 mín. voru til leiksloka varð Jason Dourisseau frá að víkja í liði KR með fimm villur en í hans stað kom Helgi Magnússon inn á völlinn með fjórar villur á bakinu. Helgi var hvergi banginn og með þriggja stiga körfu breytti hann stöðunni í 82-74 fyrir KR en því svaraði Nick Bradford hinum megin á vellinum með þrist og staðan 82-77. Þegar svo ein mínúta var til leiksloka skoraði Nick Bradford af miklu harðfylgi fyrir Grindavík og minnkaði muninn í 84-83.

KR-ingar héldu í sókn og geigaði þriggja stiga skot hjá Helga Magnússyni en KR-ingar náðu sóknarfrákastinu en þeim tókst ekki að skora og gestirnir héldu í síðustu sókn vetrarins þegar nákvæmlega 24 sekúndur voru til leiksloka.

{mosimage}
(Heljarmennið Baldur Ólafsson bar Ólaf Má Ægisson um víðan völl í fagnaðarlátunum)

Öll leiktíðin var undir í sókn Grindavíkur og svo vildi til að Brenton Birmingham fékk boltann við teig KR-inga. Hann freistaði þess að finna samherja en KR vörnin sá við Brenton og blakaði boltanum til Fannars Ólafsson sem hljóp út leikklukkuna við mikinn fögnuð KR-inga. Lokatölur því 84-83 KR í vil sem eru Íslandsmeistarar leiktíðina 2008-2009.

Jón Arnór Stefánsson gerði í kvöld 23 stig í liði KR og var með 5 stoðsendingar en honum næstur var Jakob Örn Sigurðarson með 22 stig og 7 fráköst. Hjá Grindavík var Nick Bradford með 33 stig og 6 fráköst en næstur þar á bæ var Páll Kristinsson með 13 stig.

Fyrir körfuknattleiksíþróttina á Íslandi var einvígi KR og Grindavíkur einn stór sigur. Nánast kjaftfullt á hverjum einasta leik, beinar útsendingar, kappsfullir stuðningsmenn sem lituðu stúkurnar, frábærar umgjarðir liðanna og síðast en ekki síst, magnaðir kappleikir þar sem rúsínan í pylsuendanum var oddaleikur tveggja bestu liða landsins og jafnvel bestu liða Íslands hin síðari ár.

Benedikt Guðmundsson þjálfari KR hefur því fært Vesturbæingum sinn annan Íslandsmeistaratitil á þremur árum en flest alla leikmenn liðsins hefur hann þjálfað frá því þeir voru óharðnaðir guttar enda var Benedikt nokkuð hræður eftir sigur sinna manna í kvöld.

Til hamingju KR!

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -