spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaVeigar með stóru körfurnar í spennusigri Njarðvíkinga

Veigar með stóru körfurnar í spennusigri Njarðvíkinga

Njarðvík og Álftanes börðust hetjulega í kvöld um stigin tvö sem í boði voru í IceMar-Höllinni í Bónusdeild karla. Lokatölur 101-96 Njarðvík í vil þar sem Veigar Páll Alexandersson setti stóru körfurnar þegar allt var í járnum og gaf Njarðvík það hænufet sem þurfti til að landa sigrinum. Magnaður leikur að baki í Njarðvík þar sem ekkert var gefið eftir.

Lautier var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld með 27 stig en hjá Álftanesi var James með 22 stig. Það var svo Veigar Páll eins og áður segir sem reið baggamuninn í kvöld hjá liðunum.

Fyrri hálfleikur var opinn og skemmtilegur, Njarðvík leiddi 28-21 eftir fyrsta hluta og svo 57-45 í hálfleik og voru svona nettu feti framar fyrri hluta leiksins. Milka og Sven báðir með 13 í leikhléi hjá heimamönnum og Justin James með 12 í liði Álftnesinga. Brynjar Kári hjá Njarðvík og Rati hjá gestunum voru báðir á þremur villum eftir fyrri hálfleikinn og einu í svona teljanlegu villubrasi.

Álftnesingar fóru á kostum í þriðja leikhluta, unnu hann 17-35 og leiddu 74-80 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Nikola Miscovic átti sterka spretti í leikhlutanum fyrir gestina en Njarðvíkurmegin var Dwayne helsti sóknarbroddur.

Í fjórða var allt í járnum frá upphafi til enda þangað til Veigar Páll Alexandersson var með risa þrista á lokamínútum leiksins. Fyrst kom hann Njarðvík í 94-89 með rúmar tvær mínútur eftir og svo með öðrum þrist breytti hann stöðunni í 97-92 með 1.40 eftir. Þetta bil náði Álftanes ekki að brúa og Njarðvíkingar fögnðu sigri þar sem Lautier setti mikilvæg víti sem endanlega ráku smiðshöggið. Lokatölur 101-96 eins og áður greinir.

Eftir leik kvöldsins eru Njarðvíkingar áfram í 9. sæti deildarinnar en nú með 12 stig og Áltanes í 8. sæti með 14 stig.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Myndir/ Gunnar Jónatansson

Fréttir
- Auglýsing -