Vefsíðan Draft Express tekur út leikmenn héðan og þaðan í heiminum. Við sögðum frá því fyrir nokkrum dögum að miðherji íslenska landsliðsins Tryggvi Snær Hlinasson væri kominn á lista hjá þeim yfir þá sem mögulega verða valdir í nýliðavali NBA deildarinnar næsta vor. Þar átti Tryggvi að fara númer 49 inn í deildina, en bæði er sú tala ekkert sérstaklega örugg, sem og er ekkert vitað fyrir víst með hvaða lið það verður sem fær þann valrétt.
Á síðu þeirra á dögunum birtist svo annar efnilegur íslenskur leikmaður, liðsmaður undir 16 ára liðs Íslands, Veigar Áki Hlynsson, í viðtali hjá síðunni. Þó leikmaðurinn sé langt frá því að vera talinn efni í NBA leikmann, tók blaðamaður síðunnar, Mike Schmitz, við hann viðtal eftir fyrsta leik undir 16 ára liðsins á Evrópumótinu í Búlgaríu þar sem að hann skilaði 16 stigum og 4 fráköstum gegn Sviss.
Frammistaða Veigars sveik heldur ekki það sem eftir var á mótinu. Í þeim átta leikjum sem hann spilaði á skilaði hann 20 stigum, 8 fráköstum, 4 stoðsendingum, 2 stolnum boltum og vörðu skoti á 32 mínútum að meðaltali í leik, en hann leiddi íslenska liðið í öllum helstu tölfræðiþáttum.
Þá var hann næst stigahæstur allra leikmanna að meðltali á mótinu, sá sjöundi í stolnum boltum, sá níundi í stoðsendingum og næst hæstur í framlagi.
Hérna er meira um tölfræði af mótinu
Í spjallinu við Draft Express ræðir hann um sig sem leikmann, reynslu sína í landsliðinu, hvenær hann byrjaði að spila, hvað hann þurfi að laga og eitthvað fleira, en viðtalið má sjá hér fyrir neðan.