spot_img
HomeFréttirVarúð! Klisja: Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi

Varúð! Klisja: Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi

Um verslunarmannahelgina árið 1994 á Akureyri (hátíðin Halló Akureyri! var einmitt haldin fyrst þetta árið) tók ég þátt öðru sinni í Street-ball körfuboltamóti (götubolta).

Alla helgina var frábært veður – eins gott og það getur verið hér í þessari „veðraparadís“ sem Ísland jú „vissulega“ er – yfir 20 stiga hiti og glampandi sól alla helgina. Ég er ekki að ljúga!

Götukörfubolti ásamt öðru á dagskrá þá helgina

Það var ekki á dagskránni að taka þátt í mótinu hjá okkur félögunum þremur, mér, Kidda og Audda, sem lögðum sem leið liggur frá Hafnarfirði til Akureyrar á bílnum hennar mömmu minnar, Toyota Corolla, árgerð 1988. Bíllinn var fullur af áfengi og einhverjum smá mat (aðallega súkkulaðikexi, kókdósum, Sóma-samlokum og sígarettum – en það þótti töff að reykja í þá daga) og planið var að skvetta ærlega úr klaufunum þessa helgina, sem og við gerðum með allnokkrum stæl.

Við vissum ekki einu sinni að það væri á dagskrá slíkt mót á Akureyri þessa helgina; en við vissum alveg hvaða bönd voru að spila í Sjallanum og vorum duglegir að finna eftirpartý, enda var lítið sofið þessa helgi.

Eftir afar hressilegt „föstudagskvöld“ (sem svo skyndilega varð að laugardegi) drösluðum við okkur á fætur rétt fyrir hádegi, af þeirri einu ástæðu að við vöknuðum allir á sama tíma glorhungraðir – enda hafði fæða okkar samanstaðið af fljótandi „mat“ um nóttina.

Við fórum á Pizza 67 og átum eins og hungraðir úlfar og Auddi bætti um betur og svolgraði í sig tveimur bjórum, en ég og Kiddi létum gosið duga.

Á næsta borði við okkur sátu þrír ungir menn og voru að tala um körfuboltamót sem var í þann mund að hefjast. Kiddi sagði að við ættum bara að taka þátt, og það var sem betur fer ekki búið að loka fyrir skráningu – vorum síðasta liðið inná mótið.

Sem betur fer höfðum við skilið „djammgallann“ eftir í húsinu sem við leigðum og eftir þynnkusturtu vorum við allir þrír í gallabuxum, stuttermabol og sæmilegum strigaskóm; ég og Kiddi grúttimbraðir en Auddi flauelsmjúkur eftir bjórana tvo á Pizza 67.

Pizza 67 voru kóngar pítsunnar á tíunda áratuginum

Dagsskipun mín var einföld:

„Takið fráköst og komið boltanum á mig. Þegar þeir eru með boltann þá berjið þið á þeim af öllum lífs- og sálarkröftun – beitið öllum löglegum en þó sérstaklega ólöglegum aðferðum við að verjast og ná í fráköst; berjist eins og brjálæðingar. En munið, ég á að fá boltann!“

Ég var sá eini af okkur sem var góður leikmaður (þó ég segi sjálfur frá), en góðir leikmenn geta í raun ekki neitt nema þeir fái aðstoð frá samherjum sínum.

Það voru fullt af liðum mætt til leiks; þrír leikmenn í hverju liði (spilað á eina körfu) og einn varamaður, en slíkan munað gátum við ekki leyft okkur. Öll liðin, nema það síðasta sem við mættum, vanmátu okkur gróflega og þurftu að greiða hátt gjald fyrir það. Sigrarnir hrönnuðust upp; ég varð næstum eins heitur og Kiddi Byssa (einmitt! I wish!) og hreinlega raðaði niður körfunum og Auddi og Kiddi spiluðu eins og þeir væru úlfaldar á amfetamínsterum; lömdu frá sér og tóku hvert frákastið á fætur öðru; spiluðu góða en harða og alveg kolólega vörn, en allir sem hafa tekið þátt í slíkum mótum vita að leikmenn kalla ekki eftir villu nema þú sért farinn að hrækja blóði, þrír fingur farnir úr lið, öll liðbönd í vinstri ökklanum slitin og hægri sköflungurinn mölbrotinn.

Og þeir hlýddu mér; gáfu alltaf boltann á mig þegar þeir gátu. Ég var jafn heitur og veðrið og hafði trú á að ég gæti allt (sem er frábær tilfinning) og oft fannst mér karfan vera á stærð við gám úr Sorpu ef hann væri kringlóttur.

Í undanúrslitunum mættum við leikmönnum úr meistaraflokki Þórs frá Akureyri; þeir voru betri en við og höfðu líka varamann. Samt tókst okkur að standa í þeim, en að lokum urðum við að játa okkur sigraða; lokatölur í eina leik mótsins sem við töpuðum voru 15-8 Norðanmönnum í vil.

Jæja, þá er komið að klisjunni góðu: Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

En í klisjum er oft mikinn sannleika að finna, það er mín trú. Við félagarnir, tveir vinir og annar í fríi, stóðum okkur frábærlega á mótinu af því að við höfðum dagsskipunina einfalda og fórum eftir henni. Við trúðum á sjálfa okkur og það er einfaldlega eitt það mikilvægasta sem fólk gerir í lífinu. Fólk getur allt sem það vill sé viljinn fyrir hendi og dugnaður alltaf á dagskrá..

Þrír 23 ára gamlir og skemmtanaglaðir Hafnfirðingar með takmarkaða getu í körfubolta komust alla leið í undanúrslit á fjölmennu og sterku móti. Ef við gátum það, þá getið þið það pottþétt. Við öll getum allt ef viljinn er fyrir hendi.

Fréttir
- Auglýsing -