spot_img
HomeFréttirVarnartilburðir Vals á lokasprettinum tryggðu tvö stig

Varnartilburðir Vals á lokasprettinum tryggðu tvö stig

Valur og Hamar áttust við í Domino´s deild kvenna í kvöld. Valskonur nældu sér í tvö mikilvæg stig með naumum sigri á Blómabæjarkonum. Hannes Birgir Hjálmarsson tók púlsinn á gangi mála í Vodafonehöllinni í kvöld. 
 
Fyrsti fjórðungur var frekar jafn og nokkuð um mistök á báða bóga, Hamar komst í 0-3 en Valur skoraði næstu sjö stig og staðan 7-3 eftir 5 mínútur, stigaskor frekar lágt. Hamar jafnar 7-7 þegar 3.30 eru eftir af fjórðungnum. Liðin skora til skiptis það sem eftir lifir fjórðingsins og Sara Diljá setur flautukörfu eftir glæsilegt sóknarfrákast og kemur Val í 13-11.
 
Hamar jafnar strax í fyrstu sókn liðsins en Valsliðið virðist ekki geta keypt körfu! Hamarsstelpurnar komast yfir 15-17 eftir 2.30 mínútur en einu stig Vals í fjórðungnum eru af vítalínunni! Loks skora Valsstelpur eftir gegnumbrot og jafna 17-17 þegar 7 mínútur eru eftir af fjórðungnum og næstu mínútur skiptast liðin á að skora en leikurinn er afar hægur og Valsliðið nær ekki að keyra upp hraðan og Hamar nær að vera á undan í stigaskorinu og nær 4 stiga forystu 19-23 þegar 4 mínútur eru eftir. Valsliðið jafnar mínútu síðar en Hamar nær aftur 4 stiga forystu 23-27 þegar 2.30 eru eftir af fyrri hálfleik. Loks lifnar aðeins yfir leiknum hraðinn eykst og barátta að sjást, vonandi heldur þetta áfram í seinni hálfleik sem Hamar byrjar með þriggja stiga forystu 26-29.
 
Valsliðið hefur hitt afleitlega í leiknum til þessa 31% í tveggja stiga skotum (9/29) og 20% í þriggja (2/10) Hamar er með mun betri nýtingu í tveggja stiga skotum 45% (9/20) og svipað í þriggja (2/9). Sidnei Moss hefur farið fyrir Hamarsliðinu og er með 14 stig (6/8 í 2 stiga skotum) og 5 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir hefur rifið niður 10 fráköst og staðið sig vel. Hjá Valsliðinu hefur stigaskorið dreifst aðeins meira Sóllilja Bjarnadóttir er með 7 stig, Taleya Mayberry 6 stig (18% skotnýting) og Ragnheiður Benónýsdóttir 6 stig og 5 fráköst.
 
Valur skorar fyrstu körfu seinni hálfleiks og munurinn orðinn eitt stig 28-29 en síðan skora liðin ekki körfu í 4 mínútur þegar Valur skorar loksins og kemst yfir 30-29, Hamar kemst síðan í 30-32 þegar 5 mínútur eru eftir. Þá stela Hamarsstelpur boltanum í tvígang og komast í 30-36 og virðast vera að ná ákveðnu frumkvæði í leiknum. Valsliðið byrjar þá á að pressa pg nær að keyra upp hraðann í nokkrar sóknir og komast yfir 40-36 þegar rúmar 2 mínútur eru eftir af fjórðungnum, greinilegt að dagskipunin hjá Val er að keyra upp hraðann eins og hægt er! Valsliðið vinnur þriðja leikhluta 16-8.
 
Valsliðið byrjar lokafjórðunginn á svæðispressu og skora fyrstu körfurnar og Kristrún setur þrist þegar 8 mínútur eru eftir og kemur Val í 47-39 en Þórunn Bjarnadóttir setur þrist strax á móti, staðan 47-42 og 7 mínútur eftir. Heldur hefur lifnað yfir leiknum og stemmningin mun betri en fyrr í leiknum. Sidnei Moss minnkar muninn í 2 stig 47-45 og tveir þristar í röð frá Þórunni og Heiðu kemur Hamri yfir 49-51 þegar 5 mínútur eru eftir af leiknum! Kristrún jafnar úr vítaskotum og þegar 4 mínútur eru eftir jafnar Mayberry í 53-53. Kristrún setur þrist þegar 3 mínútur eru eftir og kemur Val yfir á ný 56-54 og Mayberry eykur forystuna í 4 stig 58-54, Moss setur tvö víti og spennan magnast á lokamínútum leiksins. Valsliðið nær að stela boltanum í tvígang og skora tvær körfur og ná 6 stiga forystu 62-56 þegar tæpar 2 mínútur eru eftir. Þórunn setur þrist þegar 30 sekúndur eru eftir og minnkar muninn í þrjú stig 64-61 og Valur nær að klára dæmið þótt leikur liðsins hafi ekki verið hinn besti í vetur, lokatölur 65-61 í frekar bragðdaufum leik að Hlíðarenda.
 
Taleya Mayberry fór mikinn í seinni hálfleik fyrir Val og skoraði alls 28 stig og tók 14 fráköst, Ragnheiður Benónýs tók 13 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði á mikilvægum augnablikum (alls 13 stig) og Sóllilja Bjarnadóttir skoraði 10 stig.
Sidnei Moss var atkvæðamest í liði Hamars með 27 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar, Salbjörg Ragna átti flottan leik með 7 stig 15 fráköst og 5 varin skot.
 
Leikinn dæmdu þeiri Kristinn Óskarson og Steinar Orri Sigurðsson og dæmdu þeir leikinn af stakri prýði.
 
Vodafone höllin að Hlíðarenda / Hannes Birgir Hjálmarsson
 
 
Fréttir
- Auglýsing -