spot_img
HomeFréttirVarnarsigur Snæfellsstúlkna.

Varnarsigur Snæfellsstúlkna.

 Chynna Brown var ekki með Snæfelli í þessum fyrsta leik í úrlsitaeinvíginu gegn Haukum og Hugrún Eva var einnig á tréverkinu. Allir virtust í góðu lagi hjá Haukum. Karlakór Reykjavíkur sem var í æfingarferð í Hólminum komu og tóku þjóðsönginn fyrir alla eftir leikmannakynningu og tileinkuðu það báðum liðum. Gríðalega flott hjá strákunum undir stjórn Hólmarans Friðriks Kristinssonar.
 
 
Fyrstu rúmmar tvær mínútur af leiknum var ekkert skorað og líkt og um nettann sviðskrekk liðanna um að ræða. Hildur Sigurðardóttir setti fyrstu stigin á töfluna og Snæfell voru 4-0 yfir þegar um fjórar mínútur voru búnar. Haukar hresstust við og komust yfir 6-7 en þá tóku Snæfellsstúlkur 9-0 stökk og komust í 15-7 og Haukar töpuðu boltanum 9 sinnum. Lele Hardy var ekki hitta úr sínum skotum og hafði ekki skorað í fyrsta hluta og staðan 17-12 fyrir Snæfell.
 
Haukastúlkur voru ekki að hitta vel og Snæfellsstúlkur spiluðu góða vörn og voru yfir 21-13. Heimastúlkur misstu taktinn og boltann oft um miðjan annan hluta og gestirnir sóttu gríðalega fljótt og sterkt á 21-22. Jafnt var á með liðunum 22-22 þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og hart barist. Guðrún Gróa var að setja frakka yfir Lele og reyndi hvað hún gat að hægja vel á henni. Staðan í hálfleik var 28-25 fyrir Snæfell og hjá þeim var Hildur Björg komin með 8 stig og Berglind Gunnarsdóttir 6 stig. Í Haukaliðinu var Gunnhildur Gunnarsdóttir komin með 9 stig og Lele Hardy 7 stig og 6 fráköst.
 
Seinni hálfleikur hófst með látum og staðan varð jöfn 30-30 og Lele fór að láta meira á sér kræla en hún var búin að skora öll 9 stig Hauka þegar þær komust yfir 33-34. Ekki mikið skorað kannski en heilmikið barist í þriðja fjórðung. Helga Hjördís sá til að Snæfelll leiddi 41-36 fyrir lokahlutann.
 
Hildur Sigurðardóttir smellti tveimur þristum niður í röð og kom Snæfelli í mikilvæga forystu 47-38 þó ekki mikil væri. Ekki mikil forysta þýðir það að ekki má slaka á taumnum en Haukastúlkur færðu sig nær 49-44 og eins og úrslitakeppnin gerir ráð fyrir, taugarnar spenntar, stál í stál og ekki mikið skorað. Hjartslátturinn sem fyrr á flökti í húsinu og Snæfell með Hildi Sig og Hildi Björgu komu Snæfelli í 56-47. Haukar voru óheppnar í skotum sínum sem vildu ekki niður og Snæfell náðu fráköstunum. Jóhanna Sveinsdóttir færði Hauka nær 56-50 þegar tæp mínúta var eftir en það var Helga Hjördís sem rak naglann í þetta fyrir Snæfellsstúlkur með þrist. 59-50 urðu lokatölur og Snæfell leiðir 1-0 fyrir annan leik liðanna að Ásvöllum á miðvikudaginn nk.
 
Snæfell: Hildur Björg Kjartansdóttir 15/6 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 14/6 fráköst/8 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 11/9 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 8/4 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 7/13 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 3/5 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 1.
Haukar: Lele Hardy 18/11 fráköst/6 stolnir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 11/6 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/7 fráköst, Lovísa Björt Henningsdóttir 5/4 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 5/7 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 2.
 
Umfj: Símon
Myndir: Sumarliði
 
 
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -