spot_img
HomeFréttirVarnarmúr KR ókleifur fyrir Njarðvíkinga

Varnarmúr KR ókleifur fyrir Njarðvíkinga

Varnarleikur sem skilar titlum var á boðstólunum hjá KR í kvöld þegar Vesturbæingar náðu í tvö sterk stig í Ljónagryfjunni í Domino´s deild karla. Lokatölur 74-83 í miklum slag þar sem KR hristi af sér slenið endanlega og minnti á gæðin sem þeir voru að bjóða upp á fyrir áramót. Brynjar Þór og Martin voru beittir í liði gestanna í kvöld en kanónur Njarðvíkinga voru í strangri gæslu og KR þvingaði versta leik tímabilsins upp á statt-línuna hjá Elvari Má Friðrikssyni.
 
 
Sigurinn hjá KR í kvöld var góðri vörn að þakka sem gaf þeim nokkrum sinnum tækifæri til að refsa Njarðvíkingum illilega með skyndisóknum. Martin Hermannsson gerði 20 stig í liði KR og Brynjar Þór Björnsson var með 16 en í liði Njarðvíkinga var Tracy Smith Jr. með 23 stig og 11 fráköst.
 
KR-ingar dældu töluvert á Helga Magnússon í upphafi leiks, hann byrjaði vel og gerði varnarmönnum Njarðvíkinga erfitt fyrir þegar hann spilaði með bakið í körfuna. Ljóst var strax á upphafsmínútunum að menn myndu selja sig dýrt í kvöld, varnirnar þéttar og dómarar leiksins leyfðu nokkra hörku svo það var pústað og pípt á víxl. Maciej Baginski kom ferskur af tréverkinu hjá Njarðvík og kom heimamönnum í 18-16 með þrist og Njarðvíkingar leiddu svo 20-16 eftir fyrstu tíu mínúturnar.
 
Maciej var aftur á ferðinni í upphafi annars leikhluta og kom Njarðvík í 23-16 með öðrum þrist en harkan hélt samt áfram og KR-ingar fundu sig betur og betur með hverri mínútu. Vörn gestanna var sterk í öðrum leikhluta og hélt heimamönnum í 16 stigum. Tracy Smith Jr. var KR illur viðureignar en Brynjar Þór Björnsson kom gestunum í 34-39 með þrist þegar um 45 sekúndur voru til hálfleiks, Njarðvíkingar áttu þó lokaorðið og staðan því 36-39 í háflelik.
 
Tracy Smith Jr. var með 12 stig og 4 fráköst hjá Njarðvíkingum í leikhléi en Martin Hermannsson var með 9 stig og 2 stoðsendingar í liði KR. Þéttur fyrri hálfleikur og von á ekki síðri slag í þeim síðari.
 
Gestirnir úr Vesturbænum mættu með sömu grimmu vörnina inn í síðari hálfleikinn og héldu Njarðvíkingum í aðeins fimm stigum á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhluta. KR-ingar settu refsivöndinn á loft um leið og smá smuga gafst til og settu nokkur góð stig í bakið á Njarðvíkingum og komust í 42-52 þegar Einar Árni tók leikhlé fyrir heimamenn. Skormaskínur heimamanna voru flestar utan Smith nokkuð kaldar og í ofanálag höfðu KR-ingar mjög góðar gætur á þeim.
 
Brynjar Þór Björnsson var utan vallar hjá KR síðustu mínútur þriðja leikhluta og tók það nokkuð bit úr sókn röndóttra. Njarðvíkingar minnkuðu muninn í 47-52 en Martin Hermannsson hélt heimamönnum fjarri 53-59 með þriggja stiga körfu undir lok leikhlutans.
 
Í fjórða leikhluta létu bæði lið dómgæsluna fara nokkuð í taugarnar á sér en það virtist hafa minni áhrif á KR sem náðu 11 stiga forystu 53-64. Þessari forystu um það bil héldu KR-ingar út leikhlutann og Martin Hermannsson rak næst síðasta naglann í verkefnið með körfu og villu að auki og kom KR í 58-72 þegar 3 mínútur voru til leiksloka. Martin var svo aftur á ferðinni og lauk verkinu þegar hann kom KR í 64-76 þegar rúm mínúta var til leiksloka. Lokatölur svo 74-83 fyrir KR eins og áður greinir.
 
Topplið KR er ekki árennilegt þegar það mætir með svona vörn til leiks, svona stöff heimtar titla. Njarðvíkingar að sama skapi mega enn sætta sig við að vera eftirbátar toppliðanna þriggja og eiga enn eftir að vinna deildarsigur gegn KR, Keflavík og Grindavík á tímabilinu. Auk þess að glíma við afburðagóða KR vörnina í kvöld voru Njarðvíkingar ekki að setja þristana en Njarðvík er með tæpa 11 þrista að meðaltali í leik en afrekaði aðeins 5 stykki þetta kvöldið.
 
 
Byrjunarliðin í kvöld:
 
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Logi Gunnarsson, Ólafur Helgi Jónsson, Hjörtur Hrafn Einarsson og Tracy Smith Jr.
KR: Pavel Ermolinskij, Martin Hermannsson, Brynjar Þór Björnsson, Helgi Magnússon og Ingvaldur Magni Hafsteinsson.
 
 
 
Mynd/ [email protected] – Vörn KR small saman í kvöld og lokaði á Njarðvíkinga.
  
Fréttir
- Auglýsing -