spot_img
HomeFréttirVarnarleikur KR varð liðinu að falli í fyrsta tapleik

Varnarleikur KR varð liðinu að falli í fyrsta tapleik

Það er kalt á toppnum segja þeir og erfitt að halda sér við efnið þegar maður er að sigra alla andstæðinga sína og þá með 21 stiga mun að meðaltali. Veruleiki sem KR-ingar þekkja eftir leikinn í gærkvöldi. Ekki vantaði neitt upp á í sóknarleik KR-inga í gær. Öll tölugildi á pari við það sem þeir voru að sýna á fyrri hluta tímabils. Varnarleikurinn á hinn bóginn var skelfilegur og þá einna helst í fjórða hluta.
 
Það var aðallega í þriðja hluta sem KR-ingar spiluðu þann varnarleik sem þeir eru þekktir fyrir og unnu þann leikhluta 31-19 og útlit fyrir spennandi leik. 
 
KR-ingar skora að meðaltali um 25 stig í fjórða hluta og þar varð engin breyting á. 25 stig frá KR urðu að veruleika, en Grindvíkingar gerðu 10 betur. Aldrei í vetur hafa KR-ingar leyft álíka mikið stigaskor í einum leikhluta, að undanskildum leiknum gegn Snæfelli í október þegar Snæfellingar skoruðu 32 stig, einmitt í fjórða hluta.
 
Allt féll saman á seinustu tíu mínútunum. Menn að gleyma sínum mönnum og rótera illa. Það bætti náttúrulega ekki úr skák að Grindvíkingar voru að hitta vel fyrir utan sem teygði á vörn KR. Grindavík skoraði 1,48 stig per sókn í fjórða hluta en KR hafa leyft aðeins 0,878 í vetur fram að þessu. Gestirnir nýttu 70% sókna sinna til að skora a.m.k. eitt stig en það hlutfall hefur verið aðeins 41,8% hjá andstæðingum KR fram að þessu. Leikhraðinn rauk einnig upp í fjórða hluta eða upp í 94,9 sem KR-ingar virðast ráða illa við. Meðaltal sókna KR í vetur er mjög nálægt meðaltali deildarinnar eða 85,3. Grindavík hins vegar kann mun betur við sig í hröðum bolta eða 87,0. Í sigurleikjum Grindavíkur í vetur er leikhraðinn 88,7 sóknir.
 
Í öllum leiknum skoruðu Grindvíkingar 1,21 stig per sókn og með 56,0% sóknarnýtingu. Hittu vel utan að velli með 54,9% eFG%. KR skoraði 1,11 stig per sókn og nýttu 52% sókna. Skotnýtingin eilítið betri en Grindvíkinga eða 59,2%.
 
Það er því augljóst að sóknarleikur KR var ekki til ama í gærkvöldi heldur skelfilegur varnarleikur. Deildin varð í það minnsta umtalsvert skemmtilegri eftir að Grindjánarnir hentu þessari sprengju í töfluna.
Fréttir
- Auglýsing -