spot_img
HomeFréttirVaramenn Boston sáu um Lakers - Jöfnuðu rimmuna

Varamenn Boston sáu um Lakers – Jöfnuðu rimmuna

Boston Celtics geta þakkað varamönnum sínum fyrir sigurinn gegn LA Lakers í nótt, en þeir Glen Davis, Nate Robinson og Rasheed Wallace riðu baggamuninn á lokamínútunum á meðan "Stóra þrenningin" sat á bekknum og hvatti þá til dáða.
 
Leikurinn endaði 96-89 og eru leikar nú jafnir þar sem hvort lið hefur unnið tvo leiki. Fimmti leikuinn fer fram í Boston eftir tvo daga, en seríunni lýkur svo með tveimur leikjum í LA ef þess sjöunda gerist þörf.
 
 
Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi en Lakers leiddu með þremur stigum í hálfleik. Kobe Bryant átti góða skorpu undir lok þriðja leikhluta þar sem hann gerði þrjár 3ja stiga körfur í röð og breytti stöðunni í 62-58 fyrir Lakers, en Boston minnkuðu muninn í tvö stig fyrir lokaleikhlutann.
 
Þar tóku Celtics fljótt stjórnina, sérstaklega Glen Davis sem skoraði 9 stig í leikhlutanum. Á meðan áttu Lakers í vandræðum þar sem Andrew Bynum gat ekkert leikið í lokafjórðungum og bekkurinn skilaði ekki neinu.
 
Boston hélt Lakers í skefjum það sem eftir lifði leiks, en Wallace fékk sína sjöttu tæknivillu úrslitakeppninnar í leiknum og er í þeirri stöðu, líkt og Kendrick Perkins, að ef hann fær eina í viðbót þýðir það eins leiks bann.
 
Kobe var með 33 stig fyrir Lakers, Pau Gasol 21 og aðrir töluvert minna.
 
Paul Piece var með 19 fyrir Celtics, Davis 18, Garnett 13, Allen og Robinson með 12 og Rajon Rondo 10.

 
Fréttir
- Auglýsing -