spot_img
HomeFréttirVar miklu hrifnari af Pachulia en Yao Ming

Var miklu hrifnari af Pachulia en Yao Ming

11:25

{mosimage}

Ísland mætir Georgíu í b-deild Evrópukeppninnar í körfubolta klukkan 19.15 í Laugardalshöll í kvöld. Besti maður Georgíu er hinn 211 sentimetra hái Zaza Pachulia, sem hefur gert það gott með Atlanta Hawks í NBA og var með 12,2 stig og 6,9 fráköst að meðaltali síðasta vetur. Hlynur Bæringsson fékk að glíma við Pachulia í fyrri leik þjóðanna og eftir aðeins nokkurra sekúnda leik lá hann blóðugur og vankaður í gólfinu.

„Ég hélt kannski að þetta væri svona gaur sem sæti á bekknum í NBA. Síðan kom hann og hló bara að okkur. Það er ekki aðalmálið hvað hann er stór heldur það að hann er hrikalega hraustur," segir Hlynur, sem hefur einnig glímt við Yao Ming. „Ég var miklu hrifnari af Pachulia heldur en Yao Ming af því að mér fannst hann vera hæfileikaríkari körfuboltamaður. Yao Ming var bara eins og risastórt tré sem var erfitt að ráða við. Yao Ming telst nú samt vera betri leikmaður í NBA. Pachulia er miklu sneggri upp völlinn og miklu hraðari í öllum sínum aðgerðum. Það sem Yao Ming hefur yfir hann er stærð og þyngd," segir Hlynur.

„Pachulia er sennilega besti leikmaðurinn í Evrópu um þessar mundir. Hann er líka ungur og getur bætt sig mikið. Eins og launaseðillinn hans segir til um er hann alveg í sérflokki á vellinum," segir Hlynur en Hawks borgaði Zaza 16 milljónir dollara, eða milljarð íslenskra króna, fyrir fjögurra ára samning. „Það er ekki einhver ruslakarl að koma í Höllina. Þetta er mjög góður leikmaður og ég ætla að kíkja og skoða hann sjálfur," sagði Hlynur, sem segir íslenska liðið alveg eiga möguleika. „Þeir eru með tvo stóra menn; Pachulia og Vladimer Boisa. Þeir hafa mikla yfirburði en Georgíumennirnir eru ekki með góða bakverði að mínu mati. Ef við náum að halda stóru mönnunum okkar úr villuvandræðum og þeir ná að halda aðeins aftur af Pachulia og Boisa þá eigum við alveg möguleika. Hinir í liðinu eru engir snillingar," segir Hlynur og bætir við: "Georgía á að vera betri í körfubolta en við en á góðum degi geta strákarnir alveg unnið þetta lið." 

www.visir.is 

Mynd: www.fibaeurope.com

Fréttir
- Auglýsing -