12:09
{mosimage}
(Friðrik Erlendur Stefánsson)
Friðrik Stefánsson, leikmaður Njarðvíkur. Njarðvíkingar komu óvart með því að vinna sannfærandi sigur á Powerade-meisturum Snæfellinga í Ljónagryfjunni í fyrstu umferð Iceland Express-deild karla á fimmtudagskvöldið. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, www.visir.is
Fyrirliðinn Friðrik Stefánsson lét sitt ekki eftir liggja og lék í 23 mínútur í leiknum aðeins einni viku eftir að hann fór í hjartaþræðingu. „Það er fín staða á mér. Ég var kannski að passa mig fullmikið og aðallega út af því að það var eitthvað smá stress í manni. Ég var ekki að taka neina áhættu en læknunum var samt ekkert vel við það að ég spilaði þennan leik. Það var lítill möguleiki á því að eitthvað myndi gerast," sagði Friðrik, sem er bjartsýnn á framhaldið.
„Ég ætla að halda áfram að prófa mig áfram og láta reyna meira á mig. Ég þarf að skoða svörunina við lyfjunum sem ég er á. Þau eiga að halda þessu í skefjum. Það er ekki alveg vitað hvað þetta er en þetta er einhvers konar hjartaóregla. Hún virðist bara koma fram í kappleikjum," segir Friðrik, sem segir úrslitin í fyrsta leiknum ekki hafa verið óvænt.
„Þessi leikur kemur okkur ekkert á óvart því við erum flestir í liðinu vanir að vera í toppbaráttunni. Það var virkilega gaman að því hversu góð samheldni var í liðinu miðað við að það eru margir nýir leikmenn að koma inn í liðið. Það er samt algjör óþarfi að koma með einhverjar fullyrðingar eftir fyrsta leik," segir Friðrik, en hvað var hann sjálfur ánægðustur með í leiknum? „Ég var nú eiginlega ánægðastur með að geta labbað út af vellinum," segir Frirðik en skellir strax upp úr. „Nei, ég er að fíflast í þér. Ég var ánægður með að geta verið með og geta hjálpað liðinu til þess að vinna. Kvöldið fyrir leikinn var ég taugaóstyrkur með að taka þá ákvörðun að spila leikinn. Ég hefði samt bara stoppað í upphitun ef það hefði verið eitthvað," segir Friðrik, sem segir framhaldið eiga eftir að koma í ljós.
Hann er á lyfjum sem eiga að róa niður hjartsláttinn verði hann of hraður. Af frammistöðu fyrirliðans í leiknum skoraði hann 7 stig, tók 6 fráköst og varði 2 skot á þessum 23 mínútum. Ekki slæmt hjá manni sem lá inni á sjúkrashúsi fyrir aðeins nokkrum dögum.
Tekið orðrétt af www.visir.is
Mynd: Gunnar Freyr Steinsson – [email protected]



