Sauðkrækingurinn og leikmaður íslenska landsliðsins Sigtryggur Arnar Björnsson var gestur í síðustu upptöku af Aukasendingunni.
Upptakan var tekin á hóteli íslenska liðsins í höfuðborg Litháen, Vilníus, þar sem liðið hefur verið við æfingar síðustu daga fyrir lokamótið, en fyrsti leikur Íslands er komandi fimmtudag 28. ágúst gegn Ísrael.
Farið er um víðan völl í spjallinu við Sigtrygg Arnar, meðal annars landsliðsferil hans. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir Ísland árið 2017, en var ekki í liði Íslands sem fór á lokamót EuroBasket það árið í Helsinki í Finnlandi. Síðan þá hefur hann leikið fyrir liðið 42 leiki og ávalt gefið kost á sér til þess að vera með og hefur hann þar af leiðandi verið reglulega með liðinu þessi átta ár á milli stórmóta.
Er Sigtryggur Arnar nokkuð þakklátur fyrir að vera í þessum lokahópi Íslands, en hann kvaðst þó ekki hafa verið viss hann væri að fara fyrr en lokahópurinn var klár á dögunum. Um eftirvæntinguna fyrir lokamótinu sagði hann ,,Mikil spenna og líka smá stress. Það voru 22 leikmenn sem gerðu tilkall í 12 manna hóp. Það var alveg búið að vera smá stress og óþægileg tilfinning fram að vali”
Segir hann enn frekar ,,Maður þurfti bara vera fókuseraður og reyna spila vel á æfingum og í æfingaleikjum og vona svo það besta. En það var mjög gott þegar þetta var komið niður í 12 þá gast þú svona aðeins slakað á” Óhætt er að segja að Sigtryggur Arnar hafi nýtt tíma sinn vel í þessum æfingaleikjum sem hann hefur spilað, en í leik gegn Portúgal var hann 8 af 10 fyrir utan þriggja stiga línuna og síðasta föstudag var hann með 8 stig á 100% skotnýtingu gegn Litháen.
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á Aukasendinguna, en upptakan er einnig aðgengileg á öllum helstu veitum undir nafni Körfunnar



