spot_img
HomeFréttirValur vann varnarsigur (Umfjöllun)

Valur vann varnarsigur (Umfjöllun)

19:52

{mosimage}

Craig Walls átti góðan leik fyrir Val í dag

Ármann tóku á móti Valsmönnum í öðrum leik liðanna í undanúrslitarimmu 1. deildarinnar í Laugardalshöllinni í dag..  Valsmenn höfðu nokkuð öruggan 15 stiga sigur, 80-95, þrátt fyrir virkilega góða byrjun heimamanna sem misstu niður fínan varnarleik eftir fyrsta leikhluta og þurftu því að elta allan seinni hálfleik.  Valsmenn spiluðu virkilega góða pressuvörn nánast allan leikinn og fór hún oft mjög illa með Ármenninga en leikmenn á borð við Steinar Kaldal og George Byrd voru að spila langt frá sínu besta.  Erfitt er að draga einn leikmann út úr Valsliðinu en segja má að liðsheildin og varnarleikurinn hafi unnið leikinn en Valsmenn spiluðu á mörgum leikmönnum sem skiptu mínútunum bróðurlega á milli sín.

Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur í dag og höfðu 6 stiga forskot þegar um tvær mínútur voru liðnar af leiknum, 8-2.  Valsmenn áttu í mesta basli með góða og hreyfanlega svæðisvörn Ármenninga.  Þegar tæplega fjórar mínútur voru liðnar af leiknum tóku Valsmenn leikhlé en staðan var þá orðin 10-3.  George Byrd byrjaði mjög sterkur í varnarleik Ármanns og reyndist Valsmönnum erfiður.  Ármenningar gáfu hins vegar ekkert eftir í vörninni og gáfu bara í í sóknarleiknum ef eitthvað var og þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum var staðan 22-15 heimamönnum í vil.  Valsmenn náðu ekki að rétta hlut sinn mikið á lokamínútunni en þó um eitt stig og endaði leikhlutinn með 6 stiga mun, 25-19. 

Valsmenn byrjuðu annan leikhluta mun betur og var pressuvörnin að skila sínu.  Þegar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum voru Valsmenn því komnir yfir í fyrsta skiptið í leiknum 27-28.  Pétur Ingvarsson tók því á það ráð að taka leikhlé og lesa yfir sínum mönnum sem voru hreinlega ekki sama liðið og í fyrsta leikhluta.  Þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum höfðu Valsmenn náð 6 stiga forskoti, 29-35.  Varnarleikur Valsmanna gerði heimamönnum mjög erfitt fyrir en þeir töpuðu oftar en ekki 5-7 sekúndum í það eitt að komast yfir á hinn vallarhelminginn. Ármann náði þó að koma varnarleik sínum í gang þegar leið á leikhlutan og minnkuðu muninn niður í 2 stig þangað til Alexander Dungal tók til sinna ráða en hann skoraði seinustu 8 stig Valsmanna.  Valsmenn leiddu því með 7 stigum í hálfleik, 43-50. 

Leikmenn Ármanns voru ekki sáttir með dómgæsluna í leiknum og sérstaklega þegar dómararnir ákváðu að dæma körfu George Byrd á lokasekúndum annars leikhluta ekki gilda en dómararnir vildu  meina að leiktíminn hafi verið liðinn.  Þeir fengu því á sig tæknivillu á leiðinni í klefa þegar einhver leikmaður liðsins sparkaði stól fleiri metra frá varamannabekknum.  Steingrímur Ingólfsson nýtti bæði vítin og nokkrum sekúndum síðar setti hann niður þriggjastiga körfu og átti því 5 fyrstu stig leikhlutans.  Þegar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum var munurinn á liðunum orðinn 8 stig, 49-57.  Ennþá var varnarleikur Valsmanna að fara illa með heimamenn en þegar leilkhlutinn var rétt tæplega hálfnaður tók Ármann leikhlé í stöðunni 50-67.  Það gékk lítið hjá Ármanni að minnka muninn og þegar tvær mínútur voru eftir var munurinn 20 stig, 58-78. Ármann náði þó aðeins að rétta sinn hlut en þegar flautað var til loka leikhlutans, 63-78. 

Strax í upphafi fjórða leikhluta fékk Gunnlaugur Elsuson sína 5. villu og þurfti því að setjast á bekkinn en hann var með stigahæstu mönnum í seinustu viðureign þessara liða og því mjög slæmt fyrir sóknarleik Ármanns sem var ekki upp á sitt besta fyrir.  Þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum var munurinn 15 stig, 65-80 en Ármenningar voru í miklum vandræðum í sókninni.  Þegar lokaleikhlutinn var hálfnaður var staðan 66-82 en bæði lið voru í basli með að koma boltanum ofaní körfuna.  Þegar tvær og hálf mínúta var eftir höfðu Valsmenn sett inn fjóra ferska leikmenn og á meðan fór Steinar Kaldal á bekkinn með 5 villur.  Munurinn var 22 stig, 67-89 og fátt benti til annars en að Valsmenn færu með sigur af hólmi.

Leikurinn endaði því með 15 stiga sigri Vals, 80-95, sem mætir þá FSu í úrslitarimmu um sæti í úrvalsdeild að ári

Tölfræði

Gísli Ólafsson

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -