Reykjavíkurslagur fór fram í Origo höllinni þegar Valsarar tóku á móti nágrönnum sínum í KR. Liðin á sitthvorum enda töflunnar og mátti sjá það á leik dagsins.
Gangur leiksins
Óhætt er að segja að einungis eitt lið hafi mætt til leiks í leik dagsins. Valur komst í 15-0 snemma í leiknum og má nánast segja að leiknum hafi verið lokið. KRingar gerðu ágærlega að minnka muninn aðeins og halda muninum aðeins í skefjum í fyrri hálfleik. Samt sem áður var staðan ekki fögur fyrir KR í hálfleik 39-22.
Íslandsmeistarar Vals settu bara aftur í gírinn í seinni hálfleik og gjörsamlega völtuðu yfir KR. Lokastaðan var 73-46 fyrir Val.
Atkvæðamestar
Kiana Johnson átti frábæran leik á móti sínu gamla félagi er hún setti 17 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Ásta Júlía Grímsdóttir var einnig öflug og endaði með 16 stig og níu fráköst.
Hjá KR var Annika Holopainen að vanda öflugust með 28 stig og 9 fráköst. Ástrós Lena var með 6 stig og 7 fráköst.
Hvað næst?
Valsarar sitja nú einar á toppi deildarinnar með 18 stig með þó þrjá leiki á Keflavík sem er í öðru sæti. Næsti leikur Vals er í Stykkishólmi næstkomandi miðvikudagskvöld.
KR er enn á botni deildarinnar og hafa tapað tveimur leikjum mjög stórt í röð með þessum. KR mætir Fjölni í næstu umferð.