Valsmenn smokruðu sér í kvöld upp í 5. sæti í 1. deild karla með 90-79 sigri á FSu. Í 36 mínútur skiptust liðin á forystunni en þá kom 12-0 kafli Valsmanna sem reyndist FSu um megn. Með sigrinum komst Valur upp í 5. sæti deildarinnar með 8 stig en FSu er enn í 3. sætinu með 10 stig og misfórst að koma sér á toppinn með Þórsliðunum frá Akureyri og Þorlákshöfn. Richard Field fór mikinn í liði FSu með 28 stig og 26 fráköst en Calvin Wooten gerði 30 stig í liði Vals.
Hörður Helgi Hreiðarsson gerði fyrstu sjö stig Valsmanna í kvöld en snemma var ljóst að um jafnan og spennandi leik yrði að ræða. Seint í öðrum leikhluta setti Pétur Þór Jakobsson niður lygilegan þrist fyrir Valsmenn og jafnaði metin í 39-39 en gestirnir frá Selfossi höfðu þó yfirhöndina í hálfleik 41-43 þar sem Richard Field var kominn með 20 stig og 15 fráköst í leikhléi hjá FSu!
Gestirnir voru sprækir í upphafi síðari hálfleiks og komust í 45-50 með þriggja stiga körfu frá Val Orra Valssyni. Heimamenn tóku við sér og gerðu 9-2 áhlaup og komust í 54-52. Pétur Þór Jakobsson var svo aftur á ferðinni fyrir utan þriggja stiga línunna og nú með erfiða flautukörfu sem breytti stöðunni í 61-58 Val í vil fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Framan af fjórða leikhluta var jafnt á öllum tölum en í stöðunni 70-66 slitu Valsmenn sig frá FSu. Calvin Wooten setti þrist og jók muninn í 75-66 Val í vil, gestirnir tóku þá leikhlé en það hafði ekki áhrif því heimamenn voru komnir á bragðið, búnir að brjóta ísinn og kláruðu leikinn af öryggi 90-79.
Heildarskor:
Valur: Calvin Wooten 30/5 stolnir, Hörður Helgi Hreiðarsson 20/15 fráköst/3 varin skot, Alexander Dungal 18/6 fráköst, Pétur Þór Jakobsson 8, Hörður Nikulásson 6, Guðmundur Kristjánsson 4/4 fráköst, Snorri Páll Sigurðsson 2, Sigmar Egilsson 2/5 stoðsendingar, Þorgrímur Guðni Björnsson 0, Björgvin Rúnar Valentínusson 0/4 fráköst, Benedikt Blöndal 0.
FSu: Richard Field 28/26 fráköst, Valur Orri Valsson 20/5 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Guðmundur Auðunn Gunnarsson 12, Orri Jónsson 8/5 fráköst/5 stolnir, Sæmundur Valdimarsson 7/5 fráköst, Svavar Stefánsson 2, Arnþór Tryggvason 2, Sigurbjörn Jónsson 0, Bragi Viðar Gunnarsson 0, Eggert Sigurþór Guðlaugsson 0, Gísli Gautason 0, Jóhannes Páll Friðriksson 0.
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Sigmundur Már Herbertsson
Myndir og umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]



