spot_img
HomeFréttirValur vængjum þöndum í úrslitaeinvígið

Valur vængjum þöndum í úrslitaeinvígið

Í kvöld fór fram odda-undanúrslitaleikur á milli Vals og Þórs frá Þorlákshöfn. Þórsarar unnu fyrstu tvo leikina en Valur hefur svarað með tveimur sigurleikjum. Það má því búast við hörkuleik því þetta verður síðasti leikur tímabilsins fyrir annað liðið.  Það leit ekki út fyrir eftir þrjá leikhluta að þetta yrði spennandi leikur, yfirburðir Valsmanna í öðrum og þriðja leikhluta bjuggu til gott forskot fyrir Valsmenn. En eftir að Hjálmar fór útaf með fimm villur, þá munaði í raun bara örlitlu að Þórsarar stælu þessum sigri. En Valur vann 102 – 95

Það var kjaftfull Origohöll löngu fyrir leik, stemmingin gríðarlega góð hjá báðum stuðningsmannasveitum. Spennustigið fyrir leik var áþreifanlegt og það var greinilega taugatitringur í báðum liðum. Fyrstu mínúturnar voru mikið um feilsendingar og misheppnuð skot. Fyrstu stig leiksins komu þegar ein og hálf mínúta var liðin þegar Kári skoraði úr vítaskotum. Síðan var jafnt nánast á öllum tölum og staðan eftir fyrsta leikhluta 22-21. Dabbi kóngur byrjaði geysiel og Callum var góður hjá Val. Jordan Semple kom ekkert við sögu í þessum leikhluta.

Í öðrum leikhluta stigu Valsmenn aðeins á bensínið og náðu nokkrum stoppum og voru að setja niður stór skot, Ozren kom sterkur inn og í stöðunni 32-25 var Lalla nóg boðið og tók leikhlé. Það stoppaði ekki blæðinguna, boltaflæðið töluvert betra hjá Valsmönnum og vandræðagangur í Þórssókninni.  Undir lokin bitu Þórsarar aðeins frá sér, þá sérstaklega Fotios og Styrmir en Valsmenn náðu svona að svara fyrir sig og fóru í hálfleikinn með 10 stiga forystu 54-44. Gleðiefni að Semple kom inná þegar um mínúta var eftir af leikhlutanum.

Valsmenn byrjðu þriðja leikhlutann með látum, allt sem þeir gerðu gekk upp. Meira að segja Kristó setti niður þrist. Þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum neyddust Þórsarar að taka leikhlé, enda staðan orðin 71-49. Í kjölfarið bilaði leikklukkan og það varð frekari töf á leiknum. Ótrúlegt hversu oft leikklukkur bila í þessum íþróttahúsum. Eftir þetta óvænta hlé virtist eldmóðurinn hafa runnið af Valsmönnum og Þórsarar náðu aðeins að minnka muninn án þess þó að Valsmenn þyrftu að hafa einhverjar voðalegar áhyggjur. Finnur tók þó leikhlé þegar munurinn var komin í 17 stig. Valsmenn leiddu eftir þrjá leikhluta 78-60 og Valsmenn farnir að dreyma um úrslitaeinvígi.

Það var ljóst að Þórsarar ætluðu að selja sig dýrt í síðasta leikhlutann og gefa allt í þetta. En Valur átt svör við þeirra leik og bættu bara í. Eftir tröllatroðslu hjá Kristó sem kom muninum upp í 21 stig, tók Lárus leikhlé. Emil Karel og Hjálmar fóru útaf með fimm villur þegar leikhlutinn var varla hálfnaður. Við þetta riðlaðlaðist leikur Valsmanna og Þórsarar gengu á lagið og minnkuðu muninn í 13 stig þegar Finnur tók leikhlé og enn fimm mínútur eftir. Þórsarar héldu áfram að saxa á forskot Valsmana, hittu úr öllum sínum skotum. þegar ein mínúta var eftir var munurinn aðeins fjögur stig. Síðustu andartökin voru síðan æsispennandi þar sem Þórsarar gerðu örvæntingafulla tilraun til að stela sigrinum. En allt kom fyrir ekki, Valsmenn lönduðu verðskulduðum sigri 102-95. Það verður samt að gefa Þórsurum stóran plús fyrir mikið hugrekki í síðasta leikhluta.

Þetta var sannkallaður liðssigur hjá Valsmönnum, sex leikmenn sem skoruðu 10 stig eða meira. En Kristófer var stighæstur með 20 stig og 10 fráköst. Kári Jóns var með 18 stig og Callum 17 stig. Hjá Þórsurum var Fotios stighæstur með 30 stig og Vincent með 29 stig.

Næst á dagskrá er fyrsti úrslitaleikurinn um Íslandsmeistaratitilinn á milli Vals og Tindastóls og hann fer fram 6. maí. Það verður semsagt endurtekinn serían frá því í fyrra. Sú var stórkostleg og miðað við frammistöðu beggja þessara liða þá má alveg búast við stórkostlegri skemmtun sem fer vonandi í fimm leiki.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -