spot_img
HomeFréttirValur tók forystuna í skrikkjóttum leik

Valur tók forystuna í skrikkjóttum leik

Valur og Keflavík mættust í fyrsta leik úrslitaviðureignar þeirra um Íslandsmeistaratitilinn í kvöld í Origo-höllinni. Liðin mættust í undanúrslitarimmunni fyrir ári síðan en voru að þessu sinni bæði búin að komast áfram í úrslitaseríuna. Leikurinn var mjög hægur að fara af stað en Valur náði að finna taktinn fyrr og tryggðu sér að lokum 1-0 forystu í rimmunni með sigri, 75-63.

Gangur leiksins

Fyrsti leikur úrslitaviðureignarinnar milli Vals og Keflavíkur bar keim af miklum skrekki hjá báðum liðum framan af. Hvorugt lið gat fundið körfuna þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og eftir fimm mínútur var staðan aðeins 2-2! Valur fór loks í gang eftir miklar þreifingar og voru komnar með 8 stiga forystu áður en Jón Guðmundsson þjálfari Keflavíkur tók loks leikhlé með tvær mínútur eftir af fyrsta leikhluta. Keflavík gat komið í veg fyrir að Valsstúlkur skoruðu það sem eftir var fram að leikhlutaskiptunum en gátu þó ekki sjálfar sett boltann niður. Staðan var því 14-6 eftir 10 skrikkjóttar upphafsmínútur.

Keflavík komst aftur inn í flæði leiksins með fimm stigum í röð hjá Þórönnu Kiku Hodge-Carr, sem hafði verið frá keppni næstum allt tímabilið vegna meiðsla. Þóranna setti fyrsta þriggja stiga skot síns liðs og var dugleg að sækja á körfuna var komin með sjö stig á meðan að allt byrjunarlið Keflavíkur var aðeins með átta stig þegar fimm mínútur lifðu fyrri hálfleiks! Valur gerði vel í að takmarka Söru Rún Hinriksdóttur og Brittanny Dinkins í fyrri hálfleik en gekk verr að stöðva bekkinn hjá Keflavík, enda áttu leikmenn eins og Birna Valgerður Benónýsdóttir og Katla Rún Garðarsdóttir góðar innkomur.

Varaliðið hjá Keflavík var eini ljósi punkturinn í annars ömurlegum fyrri hálfleik hjá gestunum. Bekkurinn hjá Keflavíkur hafði skorað fimmtán af 28 stigum liðsins fyrstu tuttugu mínúturnar og Jón Guðmundsson hefur eflaust komið með eldræðuna í búningsklefanum. Það virtist stefna í erfiðan seinni hálfleik hjá Suðurnesjastelpunum. Munurinn var allavega ekki óyfirstíganlegur og Valur hélt inn í hálfleikshléið með ellefu stigu forystu, 39-28.

Seinni hálfleikur byrjaði ekki ósvipaður og sá fyrri en bæði lið voru að tapa boltanum og hitta illa úr skotunum sínum fyrstu mínúturnar. Brittanny og Sara Rún fóru þó loks í gang og Keflavík hóf að saxa á forskotið. Brittanny hafði augljóslega tekið lélegt gengi liðsins til sín og fór hamförum í þriðja leikhlutanum. Hún hafði aðeins skorað fyrstu tvö stig síns liðs í fyrri hálfleik en skoraði á fjögurra mínútna kafla heil ellefu stig! Á 28. mínútu leiksins náðu Keflvíkingar loks að jafna stöðuna, 47-47, og þá hafði Darri Freyr þjálfari Vals séð nóg. Hann tók leikhlé að því er virtist til að drepa stemminguna hjá Keflavík sem hafði tilætluð áhrif. Valur skoraði næstu níu stig leiksins og þó að Keflavík hafi aðeins getað skorað á móti þá náðu Valsarar að taka tíu stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 61-51.

Birna Valgerður og Þóranna Kika komu aftur inn með forsi í upphafi lokaleikhlutans og gátu skilað stigum fyrir sitt lið. Skyndilega var þriggja stiga munur og fimm mínútur eftir! Valsstúlkur stóðust hins vegar áhlaup gestanna og svöruðu með áhlaupi á móti. Þær breikkuðu bilið í átta stig þegar þrjár mínútur lifðu leiks og þegar lítið var eftir skoruðu þær Helena og Heather sitt hvora körfuna til að klára leikinn og gera út um vonir Keflavíkur. Leiknum lauk án annarrar körfu og lokastaðan varð því 75-63, Val í vil.

Lykillinn

Helena Sverrisdóttir var góð að vanda fyrir Val í kvöld ásamt Heather Butler. Helena skoraði 23 stig, tók tíu fráköst og gaf sex stoðsendingar ásamt því að verja fjögur skot og stela þremur boltum. Heather bætti við þetta 23 stigum sömuleiðis, fimm fráköstum og fjórum stoðsendingum. Simona Podesvova ber að minnast sérstaklega á, en hún var illviðráðanleg undir körfunni og tók sautján fráköst þar af ellefu sóknarfráköst. Þó hún hafi aðeins skorað fjögur gefur augaleið að hún var mikilvæg fyrir Valsara í kvöld.

Keflavík þurfti margfalt betra framlag frá byrjunarliðinu sínu í kvöld. Brittany og Sara Rún skoruðu samtals 24 stig og samanlagt framlag þeirra var minna en samanlagt framlag þeirra Þórönnu Kiku og Birnu Valgerðar. Þær tvær komu af bekknum og skoruðu samtals tuttugu stig.

Slakur fyrsti leikur hjá báðum liðum

Bæði lið hittu mjög illa í kvöld og voru að klikka úr galopnum færum sem og að tapa boltanum trekk í trekk. Keflavík átti hins vegar erfiðara uppdráttar og tóku þrettán færri skot í leiknum (68 gegn 81 hjá Val). Valur fékk fleiri skot með því að eigna sér sóknarfrákastabaráttuna (23 gegn fjórtán hjá Keflavík) og með því að tapa færri boltum (tólf tapaðir boltar gegn nítján hjá Keflavík). Í þessu fólst sigurinn.

Næsti leikur

Þá er örstutt í næsta leik, en hann fer fram miðvikudaginn 24. apríl kl.19:15 í Blue-höllinni í Keflavík. Valsarar verða að mæta spenntar inn í þann leik, en þær geta líklegast ekki gert ráð fyrir að Keflvíkingar eigi svona slæman leik tvisvar í sömu seríu. Þær þurfa meira framlag frá minni spámönnum liðsins og það má ekki gerast að byrjunarliðsmaður hjá þeim komist ekki einu sinni á blað í stigaskori.

Keflavík verður núna að verja heimavöllinn og fá fleiri stig frá sínum byrjunarliðsmönnum. Sara Rún var tekin úr sambandi í þessum leik og þær Bryndís Guðmundsdóttir og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir þurfa að eiga miklu betri frammistöður í næstu leikjum. Að öðrum kosti gætu Keflvíkingar áttu von á því að vera sópað út úr þessari úrslitaseríu.

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Eygló Anna Ottesen

Viðtöl eftir leikinn


Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson
Myndir / Eygló Anna Ottesen

Fréttir
- Auglýsing -