spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaValur sótti sigur í framlengdum leik á Sauðárkróki

Valur sótti sigur í framlengdum leik á Sauðárkróki

Tindastóll tók á móti Val í Bónus deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Fyrsti leikur seinni umferðar deildarinnar en Stólar höfðu unnið fyrri leik liðanna naumlega.

Heimamenn í Tindastól settu fyrstu körfu leiksins en svo tóku gestirnir öll völd á vellinum og rifu í sig Stóla eins og hátíðarpylsu, Hvorki gekk né rak hjá Stólum í sókn eða vörn og gestirnir gengu á lagið, settu góð skot og leiddu eftir fyrsta leikhlutann 14-31. Tindastólsmenn komu ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta og byrjuðu að éta niður muninn, sérstaklega eftir að dómarar leiksins fóru að dæma beggja vegna vallarins en Valsmenn fengu 4 sinnum dæmda á sig villu í fyrsta fjórðungnum.  Heimamenn hertu sig í vörninni og náðu að halda Valsmönnum í 17 stigum í 2. fjórðung og skoruðu 30 stig sjálfir, staðan 44-48 í hálfleik eftir stolinn bolta og troðslu frá Taiwo

Stólar héldu áfram að sækja á Valsmenn og jöfnuðu leikinn í 52-52 með þrist frá Arnari sem setti svo annan stuttu seinna og kom heimamönnum yfir. Þristar frá Geks og svo Ivan komu Stólum 6 stigum yfir og Júlli kom muninum í 8 stig þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Þessar tvær mínútur unnu Valsmenn hinsvegar 5-2 og staðan 66-61 fyrir lokaátökin.

Tölfræði leiksins

Átökin voru gríðarleg í síðasta leikhlutanum þó heimamenn væru alltaf skrefinu á undan. Drungilas kom Stólum í 88-84 þegar mínúta var eftir. Keyshawn skoraði á móti og svo var eins og boltinn yrði heitur hjá báðum liðum sem endaði með því að Júlíus fékk tvö víti þegar 13 sekúndur voru eftir. Hann nýtti annað og staðan 89-86 og Finnur tók leikhlé. Valsmenn settu upp í kerfi sem endaði með skoti frá Kára sem geigaði og brotið var á Ragga. Hann klikkaði á báðum vítunum og ennþá 6 sekúndur eftir. Geks braut á Nikolic, ekki kominn bónus og Valur setti aftur upp kerfi, í þetta sinn fékk Keyshawn Woods boltann og setti niður ótrúlegan þrist á lokasekúndunni. Framlenging og Síkið var slegið.

Í framlengingunni voru gestirnir mun sterkari og ráðleysi einkenndi sóknarleik heimamanna. Taiwo klikkaði á 3-4 skotum og tapaði boltanum minnst tvisvar og Valsmenn sigldu á endanum heim öruggum 99-108 sigri

Hjá Tindastól endaði Taiwo stigahæstur með 30 stig og tók að auki 12 fráköst en 4 tapaðir boltar reyndust dýrir. Basile gekk illa að keyra að körfunni og setti aðeins 9 stig en bætti það upp með 11 stoðsendingum. Hjá gestunum voru fyrrum leikmenn Stóla áberandi, Woods átti stórleik með 28 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar og Callum Lawson setti 27 stig

Viðtöl :

Umfjöllun // Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -