spot_img
HomeFréttirValur skemmdi sigurhátíð Hamars

Valur skemmdi sigurhátíð Hamars

Valur knúði fram oddaleik með sigri á Hamri í  úrslitaeinvígi 1. deildar karla. Staðan í einvíginu var 2-1 fyrir Hamri fyrir leik og því var þetta síðasti séns Vals að klóra í bakkann. 

 

Það gerði Valur með góðum sigri í kvöld og því fer fram hrein úrslitaleikur um sætið næstkomandi miðvikudag þann 12. apríl kl 18:00. 

 

Fyrir leikinn: 

 

Staðan í einvíginu var 2-1 fyrir Hamri og gátu Hvergerðingar því tryggt sæti í úrvalsdeild að ári með sigri. Hamar endaði í fimmta sæti 1. deildar karla eftir og gengi liðsins var ekki sannfærandi í deildarkeppninni. Hamar spilaði síðast í úrvalsdeild árið 2011 en þá var Ágúst Björgvinsson þjálfari liðsins sem þjálfaði lið Vals í dag. 

 

Þessi sömu lið mættust einnig árið 2013 í einvígi um sæti í úrvalsdeild. Þá þurfti einungis tvo sigra til að vinna einvígið en þá vann Valur 2-0 og tryggði sér sætið einmitt í Hveragerði. 

 

Gangur leiksins:

 

Valsmenn voru sterkari í fyrsta leikhluta. Þeim tókst að stilla hraðan í leiknum og hittu vel úr opnum skotum sem tryggði þeim 24-18 forystu eftir fyrsta leikhluta. 

 

Annar leikhluti var svo „The Erlendur Ágúst saga“. Kauði snarhitnaði og sallaði niður stigum. Hann var með 13 stig á stuttum kafla og Hamar tók forystu í leiknum. Hamar setti hvorki meira né minna en 34 stig á Val í leikhlutanum og fóru með níu stiga forystu í hálfleikinn 52-43.

 

Valur kom ákveðið til leik í seinni hálfleik og pressuðu hátt á vellinum. Það tók heimamenn nokkra stund að finna svör við vörninni og náði Valur að minnka muninn strax í tvö stig. Hamar fann aftur taktinn tók yfirhöndina aftur með góðum sóknarleik þar sem boltinn fékk að ganga og sjálfstraustið lak af mönnum. 

 

Hamar virtust ætla að sigla sigrinum heim í byrjun fjórða leikhluta en þá loksins mætti vörn Vals til leiks. Heimamenn voru eingöngu með þrjú stig á síðustu fimm mínútunum og Valsmenn settu stórar körfur. Oddur Birnir setti tvær þriggja stiga körfur þegar þrjár mínútur voru eftir og kom Val yfir í fyrsta skiptið síðan í öðrum lekhluta. Hamar náði ekki að svara þessu áhlaupi og Völsurum tókst að tryggja sér oddaleik í einvíginu. 

 

Hetjan:

 

Urald King var gríðarlega sterkur í þessum leik og tókst að setja liðið á sínar herðar í seinni hálfleik.  Hann endaði með 36 stig, 19 fráköst og 64% skotnýtingu. Auk þess var hann með 54 framlagsstig í leiknum. Einnig var Oddur Birnir mikilvægur í dag og þá sérlega tvær þriggja stiga körfur hans í leiknum sem nánast unnu leikinn. 

 

Kjarninn: 

 

Valsmenn voru sterkari að lokum og tókst að tryggja sér hreinan úrslitaleik sem fram fer á miðvikudagskvöldið kl 18:00. Hamar voru sterkari stærri hlutia leiksins en tókst aldrei að klára leikinn almennilega og Valsmenn hrukku í gang á réttu augnabliki. Varnarleikur Vals sem hefur verið þeirra aðalsmerki var langt frá sínu besta í dag. Hamarsmenn spiluðu mjög vel í dag en mögulega var það reynsluleysi sem gerði það að verkum að liðinu tókst ekki að klára ætlunarverkið í dag. 

 

Það er hinsvegar ljóst að það verður rosalegur leikur á miðvikudaginn þegar liðin mætast í hreinum úrslitaleik. Hamar lenti í nákvæmlega sömu stöðu í einvíginu gegn Fjölni en Valsmenn vilja sjálfsagt ekki falla úr leik á heimavelli líkt og á síðasta tímabili. 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Davíð Eldur)

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -