Grindavík sótti Val heim að Hlíðarenda í dag. Pálína kom gestunum yfir á fyrstu sekúndum leiksins, en Valur svaraði með 7 stigum í röð og leiddu það sem eftir var leiks. Valur vann þægilegan sigur 82 – 68. Nesti Grindavíkur fyrir bikarúrslitin í Laugardalshöll 21. febrúar verður því súrt og mögulega dýrt deildartap.
Liðunum gekk illa að skora fyrr en undir lok fyrsta leikhluta og þá leiddi Valur með 20 stigum geng 16. Kristrún var komin með 8 stig og var besti leikmaður Vals. Pálína var sú eina í Grindavíkurliðinu sem lét eitthvað að sér kveða í sóknarleiknum. Það vakti athygli að erlendir leikmenn liðanna skoruðu ekki stig í fyrsta leikhlutanum. Valur lék góða vörn í öðrum leikhluta, beitti pressuvörn og svæðisvörn til skiptis við góða maður á mann vörn og Grindavík gekk illa að skora. Á meðan vaknaði Taleya Marberry til lífsins og skoraði 14 stig í leikhlutanum. Valskonur leiddu með 16 stigum 47 – 31 í hálfleik.
Kristrún var líka komin með 14 stig eins og Pálína hjá Greindavík. Í seinni hálfleik héldu Valskonur völdunum og helyptu Grindavík ekki nálægt þrátt fyrir að missa Kristrúnu meidda af velli þegar 18 mínútur voru eftir af leiknum. Taleya skoraði auðveldar körfur að vild og það má segja að Sverrir Þór hafi kastað inn handklæðinu þegar 5 mínúrur voru eftir, af leiknum, en þá skipti hann Pálínu út af.
Bestu leikmenn Vals voru Taleya, Kristrún á meðan hennar naut við, Ragna Margrét og Guðbjörg. Hjá Greidavík var Pálína lang best, en María Ben og Petrúnella áttu spretti inn á milli.
Með sigrinum jöfnuðu Valskonur við Hauka og eru einum sigri á eftir Grindavík. Það er því mikil barátta framundan um þriðja og fjórða sætið í úrslitakeppninni hjá konunum.
Myndir og umfjöllun/ Torfi Magnússon
Ágúst Björgvinsson – Valur
Sverrir Þór Sverrisson – Grindavík



